Þyngdaraukning á meðgöngu?

Spurning:
Sæl og blessuð og takk fyrir mjög góða síðu! Ég er ólétt, komin 31 viku og er búin að þyngjast um heil 17 kíló!!! (Ég er grönn að eðlisfari, var 57 kg áður en ég varð ófrísk en er núna orðin 74 kg!). Ég veit að þetta þykir mikil þyngdaraukning og þyngstu mánuðirnir eftir! Ég hætti að reykja og það hefur eitthvað að segja, ég hef heyrt að það sé algengt að fólk þyngist um ca. 7 kíló af því að hætta!? Ég var búin að reykja í u.þ.b. 6 ár.
Málið er að mér líður skiljanlega alls ekki vel með það að þyngjast svona mikið og er að velta því fyrir mér hvort þú getir ráðlagt mér eitthvað? Ég er með grindarloss-einkenni, var hjá lækni um daginn, og get því ekki hreyft mig neitt óskaplega mikið. Ég reyni að borða holla fæðu og drekk mikið vatn! Ég var ekki voðalega mikið fyrir að borða áður en ég varð ófrísk, þ.e. borðaði ca. 2svar á dag en á meðgöngunni er ég voðalega oft svöng og síétandi miðað við hvernig ég var. Ég veit að það er eðlilegt að matarlystin aukist, en hvernig veit ég hvar ég á að setja mörkin?
Ég er komin með slit á brjóstin, ofarlega á aftanverð lærin og aðra mjöðmina! Ég held ég sé með dáldinn bjúg! ;( Bumban er stór og hörð og fólk segir þetta greinilega vera stórt barn! Geturðu sagt mér ca. hvað ég ætti að borða yfir daginn eða eitthvað? Eða er þetta kannski bara í lagi?

Svar:
Þetta er heldur rífleg þyngdaraukning þar sem þú átt jú ,,þyngstu" vikurnar eftir. Eitthvað af þessu er vökvi á formi bjúgsöfunar en væntanlega er þarna líka um að ræða fitusöfnun. Til að stemma stigu við óhóflegri fitusöfnun þarftu að gæta að því hvað þú lætur ofan í þig og hversu mikið. Hollur matur getur verið óhollur ef of mikið er borðað af honum. Af því þú ert barnshafandi máttu þó vitaskuld ekki fara í megrun þú þarft 2100 – 2300 kkal á dag til að meðgangan gangi vel og fóstrið dafni. En best er að hitaeiningarnar komi að mestu leyti úr kjöti, fiski, mögrum mjólkurvörum og flóknum kolvetnum en minna úr fitu, unnum vörum og einföldum kolvetnum eins og sykri. Það er betra að borða sig sadda þrisvar á dag og að saðsemin komi að miklu leyti úr grænmeti og öðrum trefjum en að vera sínartandi en þó er nauðsynlegt að borða millimála og þá helst kornvörur, ávexti eða grænmeti. Þú getur reiknað út hitaeiningagildin á vef manneldisráðs eða matarvefurinn.is. Haldi þyngdaraukningin áfram að vera heldur mikil væri ráð fyrir þig að fá viðtal við næringarráðgjafa t.d. á LSH. Ræddu þetta líka við ljósmóðurina þína, kannski á hún matarlista sem þú getur farið eftir.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir