Spurning:
Góðan daginn
Ég hef verið í miklu stríði við blöðrubólgu síðustu mánuði og hefur mér verið ráðlagt að taka inn C-vítamín með fúkkalyfjunum. Ég er núna barnshafandi og er að velta því fyrir mér hvort að það sé óhætt að vera að sýra þvagið á þennan hátt? Hef verið að taka 2-5 gr. á dag í freyðitöfluformi. Með fyrirfram þökk
Svar:
Komdu sæl.
Það er ekki æskilegt að taka stóra skammta af neinum vítamínum yfirhöfuð og þá sérstaklega ekki á meðgöngu. Mjög stórir skammtar af C-vítamíni eru taldir auka líkur á nýrnasteinum hjá móðurinni og óvíst hvernig þeir fara með barnið. Komið hafa upp tilfelli þar sem börn fá skyrbjúg eftir fæðingu vegna fráhvarfs eftir mikla C-vítamíninnntöku móður á meðgöngu. Því er ekki mælt með meira en ráðlöðgum dagskammti af C-vítamíni (70 mg á meðgöngu).
Mörgum konum sem eiga í vandræðum með þvagfærasýkingar gagnast vel að drekka ca 200ml. af trönuberjasafa hvern dag og meira ef þær eru með einkenni um blöðrubólgu. Skiptar skoðanir eru um hvort trönuberjahylki virki jafn vel en þær konur sem ég hef rætt þetta við (og nokkrar reynslusögur af netinu) segja að safinn virki mun betur. Trönuberjasafann máttu drekka að vild alla meðgönguna því hann inniheldur líka slatta af járni og steinefnum sem gera þér gott.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir