Dofi í fingrum

Fyrirspurn:

Góðan dag.

Ég er að vinna á verksmiðjuskipi við Afríku svo það er dálítið langt að fara til læknis. Spurning mín er hver ástæðan gæti verið fyrir því að fyrir svona viku til tíu dögum fór ég að fá náldofa í báða litluputtana og raunar líka í baugfingur beggja handa og er þetta ástand viðvarandi allan sólahringinn. Ég er einhvern veginn búinn að missa verulega máttinn í báðum höndum og á meira að segja erfitt með að nota hnífapör.. Hver getur ástæðan verið? Skipið var á Las Palmas og ég var slæmur efst í hryggsúlunni rétt hjá “banakringlunni” og fór til nuddara sem þjösnaðist á mér þarna og þetta náladofavesen byrjaði fljótlega eftir það. Geta verið einhver tengsl þarna á milli.

Bestu kveðjur.

Aldur:

56

Kyn:

Karlmaður

Svar:

Komdu sæll,

Dofi í litla fingri og í baugfingri kemur yfirlitt vegna þrýstings á taug í olnboga.  Oft er talað um að maður reki vitlausa beinið í þegar högg kemur á þessa taug aftan á olnboganum.  Við þrýsting á þessa taug getur líka komið fram máttleysi í vöðvum handa og fingra.  Líklegast er þetta skýringin á þínum einkennum.  Bólga og þrýstingur á þessa taug getur t.d. komið við bjúg í líkama, einnig ef maður hefur legið lengi fram á olnboga.  Ef það er þrýstingur á þessar taugar sem er vandamálið þá er dofin í baugfingri yfirleitt bara litla fingurs megin í honum en ekki á hliðinni sem vísar að löngutöng.  Ef dofi og máttleysi eru viðvarandi vegna þrýstings á þessa taug þá er stundum gerð lítil aðgerð til að létta þrýstingnum.  Þú ættir því að láta skoða þig þegar þú kemur í land næst.  Það er einnig mögulegt að þessi einkenni geti komið frá hálsi og þá mögulega tengt þessu nuddi sem þú fórst í.  Ef svo væri þá er um brjósklos að ræða í hálsi.  Dreifing dofa ætti þá að vera eitthvað öðru vísi en ég lýsti hér að ofan.  Ef þessi einkenni ágerast og sérstaklega ef einhver einkenni fara að koma frá fótum svo sem stíflleiki í vöðvum þá þarftu að láta skoða þig sem allra fyrst.

Með kveðju,

Gunnlaugur Sigurjónsson, læknir