Eggjahvíta í þvagi

Spurning:

54 ára – kona

Hvað þýðir hækkuð eggjahvíta í þvagi mögulega?
Kveðjur xxxx
Hversu marga lítra af vatni á dag má maður drekka áður en það fer að gera manni illt (ískalt)?
sama

Svar:


Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

Dagný Zoega, ljósmóðir svaraði spurningu um eggjahvítu í þvagi á sínum tíma á Doktor.is sem ég læt duga, en hún segir; "Prótein er efni úr fæðunni sem fer um blóðið og nýtist m.a. við frumuuppbyggingu. Nýrun sía blóðið, skila úrgangsefnum í þvag en láta efni á borð við prótein og sykur aftur inn í blóðrásina. Séu nýrun undir miklu álagi, eins og t.a.m. við háþrýsting og meðgöngueitrun, ná þau ekki að sinna hlutverki sínu nægilega vel og þá kemur það fram sem próteinleki – þ.e. prótein í þvagi. Á meðgöngu getur smávegis prótein lekið í þvag án þess að nokkuð sé alvarlegt að en ef próteinlekinn verður áberandi er það merki um álag á nýrun og oftast þýðir það meðgöngueitrun sé kona barnshafandi"

Varðandi vatnsdrykkju, þá er talið æskileg að maður drekki að minnsta kosti 2 lítra af vökva á dag.
Dagleg vatnsdrykkja umfram vatnsþörf er í sjálfu sér ekki holl en þó yfirleitt skaðlaus þar sem vatn umfram þörf er auðveldlega losað með þvagi og öðrum leiðum. Þörfin getur hins vegar verið mjög mismunandi, bæði einstaklingsbundin og einnig háð umhverfisaðstæðum. Til dæmis er þörfin meiri í heitu og þurru loftslagi og einnig við líkamlega áreynslu og eftir hana. Þörfin getur því auðveldlega farið talsvert yfir tvo lítra á dag og þá er æskilegt að fá nóg vatn til að fullnægja þörf.

Bestu kveðjur,

Unnur Jónsdóttir
Hjúkrunarfræðingur