Er þetta eðlilegt?

Spurning:
Ég er að spá í það hvort ég eigi við eitthvað vandamál að stríða eða hvort þetta sé eðlilegt. Þannig er mál með vexti að ég er alveg skelfilega hrædd við að deyja og hef gífurlegar áhyggjur af heimsendi og því að deyja á annan hátt (flugslys, bílslys ofl.). Stundum er það þannig að ég bara get ekki sofnað af áhyggjum af því að akkúrat á þessari stundu gæti eitthvað verið að gerast í heiminum og ég farist eftir nokkrar mínútur. Þetta er þó ekki áhverju kvöldi eða eitthvað slíkt. Að sögn var ég ung þegar ég byrjaði að lýsa yfir áhyggjum vegna kjarnorkuvopna. Einnig man ég eftir því frá því ég var lítil að ég hafði sífelldar áhyggjur um að ég myndi slasa mig og það nægði að vera að ganga í skólann, en þá var ég alltaf hrædd um að ég myndi fella mig á einhverju og slasast. Ég ímynda mér alltaf það versta.

Svo er annað og það er það að mér hefur alltaf liðið illa í fjölmenni og að þurfa að gera eitthvað fyrir framan fólk (jafnvel bara að segja brandara eða eitthvað slíkt fyrir framan vini kærastans). Ég hef ekki lokið stúdentsprófi og hefur alltaf liðið illa í skóla (þrátt fyrir að hafa gengið vel). Á sínum tíma kláraði ég ekki fyrsta árið í framhaldsskóla vegna þess hve mér leið illa og var ég þá komin með anorexíu á byrjunarstigi.

Ég hef alltaf haldið að ég væri bara svona feimin. Ég er haldin frekar mikilli fullkomnunaráráttu og hef áhyggjur af því að gera mistök. Einnig er ég að spá í því hvort þetta getur eitthvað tengst því að ég man hér um bil ekkert frá því þegar ég var yngri. Ég man eitthvað gloppótt eftir því frá því ég var ca. 17 ára.

Svar:
Þessi lýsing gæti vel átt við manneskju með almenna kvíðaröskun. Ef marka má rannsóknir eiga um 3% fólks við þetta að stríða á hverju ári svo þú ert ekki ein. Einkennin eru einmitt kvíði og áhyggjur sem viðkomandi hefur litla stjórn á. Önnur einkenni geta verið eirðarleysi, þreyta, erfiðleikar við að einbeita sér, fólk er uppstökkt, finnur fyrir vöðvaspennu eða á í erfiðleikum með svefn. Meinið er að þetta er verulega hamlandi og líkur á bata litlar ef ekkert er að gert. Einkennin geta svo versnað þegar streita eða álag bætist ofan á. Þú ættir að leita þér hjálpar hjá sálfræðingi sem fyrst og ég mæli sérstaklega með hugrænni atferlismeðferð. Hún felst í því að tekið er bæði á hugsunum þínum og athöfnum.

Gangi þér vel.
Reynir Harðarson sálfræðingur
S: 562-8565