Spurning:
Góðan daginn!
Mig langar til þess að spyrja um eyrnaverki, þ.e. hvort þeir geti leitt niður i kjálka.
Ég er 22 ára og hef aldrei verið með neitt eyrnavandamál fyrr en i febrúar siðastliðinn. Þá var ég veik og fékk mikla hellu í eyrun út af stíflum í nefinu. Eftir það fór ég að fá mikla verki í eyrun, eða réttara sagt bara vinstra eyrað. Ég fór til læknis í byrjun mars og hann sá að það var vökvi við millieyrað. Hann deyfði mig og saug vökvann úr en sagðist ekki hafa náð samt alveg öllu, en verkurinn hvarf stuttu seinna. En núna mánuði seinna var verið að þvo á mér harið í klippingu og þá fékk ég vökva inn í eyrað. Eftir það fékk ég mikinn verk í sama eyra, en ekki neina hellu. Ég fæ verk niður í kjálka og hélt á tímabili að ég væri hreinlega með tannpínu, en þetta er samt ekki í tönnunum. Ég er mjög aum í eyranu ef ég þrýsti á það eða blæs út um eyrað.
Ég vona að þú getir eitthvað hjálpað mér með mitt vandamál því ég hef ekki áhuga á því að láta sjúga vökva aftur út, því það var frekar vont.
Takk fyrir.
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Það er alveg rétt hjá þér að verkur í eyra getur leitt niður í kjálka. Verkir í eyrum geta verið af ýmsum orsökum og alltaf mikilvægt að hafa samband við heimilislækninn sinn og láta hann meta vandann. Það er ýmislegt sem getur valdið verk í eyra s.s. sýkingar í innri eða ytri eyrnagangi, sýkingar í kinnholum, sýkingar í hálsi og skemmdir í tönnum og munni svo eitthvað sé nefnt. Einnig getur vökvi safnast upp í miðeyranu eins og gerðist í þínu tilfelli og valdið verkjum. Þessi vökvi hverfur oft smám saman en í sumum tilfellum getur reynst nauðsynlegt að fjarlægja hann til að létta á einkennum. Ég hvet þig því eindregið til að hafa aftur samband við lækninn þinn og meta hvort þetta gengur yfir af sjálfu sér eða hvort þurfi að gera eitthvað frekar.
Gangi þér vel,
kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.