Spurning:
Góðan daginn.
Mitt vandamál er að ég fæ ekki fullnægingu. Núna er ég búin að vera með sama stráknum í rúmlega ár og er ekki nálægt því að fá það. Ég er 19 ára gömul og búin að stunda reglulegt kynlíf síðan ég var 17 ára, einungis með 2 strákum.
Ég er búin að prófa að reyna að fitla eitthvað við mig sjálf en mér finnst það bara óþægilegt. Stundum líður mér að meira að segja mjög illa á meðan kynmökum stendur, finnst ég vera eitthvað kúguð eða þvíumlíkt, finn ekki sjálfa mig.
Með von um svar.
kveðja.
Svar:
Komdu sæl.
Það er gott að heyra að þú vilt fara að bregðast við því að lifa ekki góðu og fullnægjandi kynlífi. Það að þú færð ekki fullnægingu virðist mér af skrifum þínum ekki vera þitt aðalvandamál í kynlífi, heldur það að þú nýtur þess ekki.
Mér virðist oft sem ætlast sé til þess að allir kunni að njóta kynlífs, bara vegna þess að þeir verða fullorðnir. Svo er alls ekki. Ýmislegt getur orðið þess valdandi að fólk lærir alls ekki að njóta kynlífs og þar sem kynlíf er samspil milli einstaklinga, getur þetta samspil þróast annað hvort í átt að góðri nautn eða í átt að stöðnun og einfaldleik, sem lítið gefur.
Mér virðist nauðsynlegt fyrir ykkur að leita ykkur aðstoðar til þess að auka gæði kynlífsins og með auknum gæðum kynlífs aukist líkurnar á því að bæði verði kynferðislega fullnægð. Meginmarkmið kynlífs er nautn en ekki fullnæging í sjálfu sér. Ef nautnin er ekki til staðar eru litlar líkur á kynferðislegri fullnægingu og það gildir um bæði kynin.
Láttu það eftir þér að leita aðstoðar.
Kær kveðja,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur.