Fólínsýra á meðgöngu – hvað gerir hún?

Spurning:

Sæl.

Ég er kona 33 ár gömul, geng með mitt þriðja barn, komin 16 vikur á leið og ný farin að taka Fólínsýru, nú er svo mikið talað um að þetta vítamín (Fólínsýra) geti komið í veg fyrir klofinn hrygg hjá fóstrinu, en þegar byrjað er svo seint?

Ekki getur fólínsýra komið í veg fyrir klofinn hrygg þegar hryggurinn hefur þegar myndast? Hvað annað gerir hún gott fyrir fóstrið þegar svo langt er komið, þ.e.a.s 16 vikur?

Með kærri kveðju og þökk fyrir góða vefsíðu.

Svar:

Sæl.

Það er rétt hjá þér að eftir 12. viku er of seint að taka Fólínsýru til að draga úr líkum á klofnum hrygg hjá fóstrinu. Best er að taka Fólínsýru áður en getnaður á sér stað og fyrstu 12 vikurnar. Þannig getur Fólínsýra minnkað líkurnar á klofnum hrygg, þ.e. hún vinnur með fóstrinu á mótunarskeiðinu. En Fólínsýra hjálpar líka til við frumuskiptingu og er nauðsynleg við myndun rauðra blóðkorna. Hún kemur þannig í veg fyrir ákveðnar tegundir blóðskorts og er því bæði góð fyrir móður og barn.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir