Hæ, ég er að velta fyrir mér hvort ég gæti hafa verið að missa fóstur. Blæðingarnar mínar eru mjög reglulegar en núna var ég 8 dögum of sein að byrja. Þegar ég byrjaði
loksins var blóðið mjög skrýtið (slímkennt og mjög dökkt á litinn) en svo breyttist það og varð nokkuð eðlilegt nokkrum klukkutímum seinna, nema það kom alveg töluvert magn af klumpum með (hef ekkert betra orð yfir það). Ég var líka með mikið verri og aðeins öðruvísi verki en venjulega. Ég á að vera 6-8 daga á túr en núna er það nánast búið eftir 4 daga. Ég missti fóstur á 9. Viku fyrir rúmu ári síðan og mér finnst þetta vera svipað nema það að ég er ekki viss um að ég hafi verið ólétt núna.
Sæl,
Það er erfitt að segja hvort að þetta hafi verið fósturmissir hjá þér. Nú veit ég ekki hvort þú varst búin að taka þungunarpróf eða sért á getnaðarvörn.
Annars er ekki óeðlilegt að missa úr blæðingar stöku sinnum eða að blæðingar séu ekki alltaf eins, þær geta verið miklar, staðið yfir í lengri tíma en vanalega eða styttri, og/eða að það blæðir afar lítið, oft koma kekkir eða slikjur með blæðingunum. En ástæðan fyrir því að blæðingunum seinkar er vegna þess að egglosi seinkar. Ef þú ert ekki ófrísk þá eru geta aðrar ástæður sem rugla tíðahringinn verið til dæmis stress, mikið þyngdartap eða aukning, og ójafnvægi á hormónum.
Ég mæli því með að þú fylgist áfram með tíðahringnum þínum, ef þú ert að reyna að verða ófrísk mæli ég með egglosprófum og svo geturu tekið þungunarpróf ef blæðingar falla niður. Ef þú verður óregluleg áfram mæli ég með að tala við kvensjúkdómalækni.
Gangi þér vel,
Bylgja Dís Birkisdóttir, hjúkrunarfræðingur.