Fyrirspurn um þunglyndis og kvíðalyf

Spurning:

Fyrirspurn um Fontex, Mianserin nm Pharma og Tafil Retard. Tek inn 20mg Fontex á hverjum morgni við þunglyndi. Við kvíða hef ég tekið Tafil Retard, þá mest 30,5mg töflur á dag en örsjaldan. Venjulegur skammtur eru tvær, ein að morgni og ein að kvöldi. Þetta hef ég gert í 1 1/2 mánuð. Nú vill ég endilega hætta að taka Tafil retard en mér skilst að það gæti reynst erfitt þar sem það er ávanabindandi. Hvaða einkenni get ég búist við að hætta taka Tafil? Borgar sig frekar að taka Mianserin NM Pharma á kvöldin en að taka Tafil við kvíða. Er Mianserin svefnlyf eða þunglyndislyf – er það einnig ávanabindandi?

Hefur þú tillögu hvernig væri best að losa sig við Tafil Retard þannig að maður finni sem minnst fyrir. Ég sem sagt að taka 0,5mg x2 á dag, er að prófa að taka 1 x 0,5 en finn fyrir ónotalegheitum og pirring, einbeitingaleysi.

Svar:

Sæl/sæll.

Fontex er lyf við þunglyndi, með eða án kvíða. Tafil Retard er kvíðastillandi en það er ávanabindandi og geta fráhvarfseinkenni s.s. kvíði, skjálfti, rugl, svefntruflanir, krampaflog, þunglyndi og óþægindi frá meltingarfærum komið í ljós þegar hætt er á lyfinu. 30,5 mg er allt of mikið, ef þetta er innsláttarvilla og á að vera 3,5 mg þá er skammturinn eðlilegur.

Mianserin NM Pharma er geðdeyfðarlyf sem ekki hefur mikla hættu á ávanabindingu. Best væri ef það gengur upp að hætta að taka Tafil Retard og taka einungis Fontex. Ef þér líður betur (nógu vel) við það að taka Mianserin NM Pharma líka þá skaltu gera það. Þú verður samt að athuga að Mianserin NM Pharma og Fontex milliverka á þann hátt að aukin verkun hlýst af(minna niðurbrot verður á virkum efnum). Einnig getur verið að annað geðdeyfðar-/kvíðastillandi lyf henti þér betur við þessar aðstæður og skaltu ræða það við lækni eða lyfjafræðing. T.d. hefur kvíðastillandi lyfið Exan ekki mikla ávanahættu í för með sér.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur