Spurning:
Góðann daginn!
Langar að fá upplýsingar um getnaðarvarnarsprautuna. Ég man ekki alveg hvað hún heitir en þetta var 3ja mánaða skammtur! Hversu langt þarf að líða þangað til hún hættir að virka sem örugg getnaðarvörn? Hvenær byrja blæðingarnar aftur? Og hvenær gæti ég orðið ófrísk eftir að sprautan hættir að virka? Ég tek það fram að kærastinn minn er á lyfinu Seroquel vegna áfallastreituröskun sem hann greindist með í fyrra, en þarf þó aðeins að vera á lyfinu í takmarkaðan tíma! Gæti þetta lyf haft áhrif á getnaðinn?
Svar:
Ég geri ráð fyrir að þú sért að tala um lyfið Depo-Provera þar sem það er eina stungulyfið til getnaðarvarna sem er á markaði hér á landi. Talað er um að eftir að notkun lyfsins er hætt, megi búast við blæðingaleysi eða -truflunum og ófrjósemi í 6-8 mánuði (í einstaka tilvikum allt upp í 18 mánuði). Lyfið gefur ekki örugga getnaðarvörn nema í þrjá mánuði, en líkur á getnaði eru þannig minni í þessa 6-8 mánuði á eftir, en þó er það ekki neitt til að reiða sig á. Þar sem þú hefur bara fengið lyfið einu sinni ætti þessi tími frekar að vera styttri en lengri. Þið ættuð ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur af því þó kærastinn sé að taka Seroquel.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur