Gigt og mataræði

Spurning:

Blessuð Ingibjörg.

Ég hef átt við heilsuvandamál að stríða (liðaslit, vöðvabólgur og gigt). Einhver aukakíló hef ég borið með mér en hef breytt matarræðinu og borða nú heilsusamlegar. Einhver kíló hafa farið en líðanin hefur ekki breyst. Mér var sagt að ef ég breytti algjörlega um, færi meira út í grænmetisfæðu með miklu fiskáti (en sleppti kjöti) og hefði aðra samsetningu á mataræðinu gæti ég bætt líðanina verulega, ekki síst minnkað liðverki. Hefur þú heyrt um þetta og veistu hvar ég gæti komist upplýsingar um slíkan „kúr“? Ef ég get bætt liðanina á þennan hátt væri það frábært.

Kær kveðja, Sigga.

Svar:

Sæl.

Margt hefur verið sagt og skrifað varðandi tengsl næringar og gigtar. Sumt satt en annað byggt á veikari grunni. Ekkert mataræði getur komið í veg fyrir eða læknað gigt, en rannsóknir sýna að mataræðið getur haft töluvert að segja varðandi líðan einstaklingsins. Mikið hefur verið rannsakað í þessum efnum síðustu ár og hugsanlegt er að tengsl mataræðis og gigtar sé í gegnum ónæmiskerfið. Lélegt mataræði veikir ónæmiskerfið sem aftur getur haft slæm áhrif á gigtina. Hjá sumum geta vissar fæðutegundir örvað ónæmiskerfið (t.d. ef um vægt ofnæmi er að ræða). Mjólk getur aukið einkennin hjá sumum (ekki ætti samt að sleppa öllum mjólkurvörum úr fæðinu án þess að leita ráða hjá næringarfræðingi). Önnur hugsanleg tengsl mataræðis og gigtar eru í gegnum fitusýrur. Fitusýran EPA sem er að finna í feitum fiski og lýsi hefur sýnt sig geta minnkað bólgusvörun, en það er einmitt hún sem veldur verkjunum. Ef hlutfall þessarar fitusýru er aukið á kostnað mettaðrar fitu (fitu sem er hörð við stofuhita, t.d. í feitum mjólkurvörum og kjöti), ættu einkenni að minnka að einhverju leyti. Tengsl næringar og gigtar gegnum offitu eru vel þekkt. Það að léttast minnkar álag á liði og verkirnir minnka, jafnvel í liðum þar sem þyngdarálag er ekki til staðar. Líkamsrækt er aldrei slæm fyrir gigtarsjúklinga og er kjörin leið til að auðvelda þyngdartap.

Það koma alltaf upp annað slagið kúrar sem eiga að lækna eða minnka gigtarverki, en sjaldnast virka þeir. Eftirfarandi kúrar hafa verið markaðssettir á þann hátt en EKKI hefur verið hægt að sýna fram á ágæti þeirra:

Alfaalfa te, Aloe vera vökvi, kalk, kopar sem bætiefni, hunang, fasta, hrá lifur, ger, lecitin og 100 fleiri.

Mín ráðlegging til þín er því sú að halda áfram að léttast (á skynsamlegan hátt – sjá greinar um megrun). Kjörið er að auka fiskneyslu og grænmeti, það gerir þér ekkert annað en gott og auðveldar þér að takmarka orkuinntökuna.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringarfræðingur