Grænleitar hægðir hjá brjóstamjólkurbarni

Spurning:

Barnabarn mitt, sem er þriggja vikna stúlkubarn, hefur undanfarna daga haft áberandi grænleitar hægðir, en linar og eðlilegar að öðru leyti. Tekið skal fram að barnið fær eingöngu móðurmjólk. Er þetta eðlilegt eða hvað er til ráða?

Svar:

Sæl.

Jú það getur verið fyllilega eðlilegt að brjóstamjólkurhægðir taki á sig grænan blæ af og til. Ef barnið er vært og þyngist eðlilega er þetta ekkert til að gera sér rellu út af. Hins vegar getur þetta verið merki um að barnið fái ekki næga fitu og þá er bara að láta stúlkuna sjúga lengur fyrra brjóstið áður en henni er boðið hitt brjóstið. Fituríkasta mjólkin (rjóminn) kemur nefnilega ekki fyrr en síðast í gjöfinni þegar manni virðist brjóstið vera orðið tómt. Gott merki um að barnið er að sjúga til sín rjómann er að það sýgur nokkur sog milli þess sem það kyngir og virðist hálfsofandi við gjöfina.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir