Grindarbotnsæfingar

Spurning:

Ég er 31 árs gömul. Vandamálið er að ég á í erfiðleikum með að halda þvagi. Þetta byrjaði eftir að ég fæddi fyrsta barn mitt, fyrir sjö árum. Ég er móðir tveggja barna og það eru aðeins þrír mánuðir síðan ég ól seinna barnið. Á sjúkrahúsinu var ég í æfingum fyrir konur, sem voru nýbúnar að fæða. Ég átti að læra að gera grindarbotnsæfingar en ég náði aldrei tökum á þeim eftir fyrri fæðinguna. Ég einbeitti mér eins og ég framast gat (100%) en þegar tíminn var liðinn vissi ég ennþá ekki hvort ég gerði æfingarnar rétt. Vandinn er sá er að ég fæ ekki tilfinningu fyrir því hvort ég dragi saman eða ekki. Þegar ég reyni endar það með, að ég spenni vöðvana í lærunum, maga og á rassi. Ég finn einfaldlega ekki réttu vöðvana. Hvað á ég að gera?

Svar:

Þú ert ekki eina konan, sem á í erfiðleikum með að „ná tökum á “ vöðvunum í grindarbotninum. Mjög algegnt er að konur geri æfingar til styrktar grindarbotninum á rangan hátt þannig að þær gera ekki sitt gagn. Reyndar er einnig alltof algengt er að konur geri alls engar æfingar til að styrkja grindarbotninn sem er mjög bagalegt. Ég geri ráð fyrir að þú hafir fengið leiðbeiningar um æfingar fyrir grindarbotninn eftir barnsburðinn. Ég fer ekki nánar í þær æfingar hér en bendi á bækling sem Heilbrigðisráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur gefið út og á hann að liggja frammi á heilsugæslustöðvum. Þar eru æfingar skýrðar vel út í máli og myndum. Það sem virðist valda þér erfiðleikum er að þú veist ekki hvernig þú skynjar það, að þú dregur saman, né heldur slakar á aftur. Til er tækjabúnaður, sem getur beinlínis mælt þrýstinginn í leggöngunum, þegar dregið er saman og slakað á. Þá er hægt að lesa á þrýstingsmæli hve vel er dregið saman. Þetta er ein möguleg leið en þægilegra og einfaldara er að þú reynir sjálf að meta starfshæfni grindarbotnsvöðva þinna. Gerðu þetta þegar þú hefur gott næði, ein út af fyrir þig. Þú setur annan fótinn upp á stól og stingur tveimur fingrum upp í leggöngin. Í þessum stellingum reynir þú eins og þú framast getur að draga saman vöðvana, sem þú notar þegar þú hefur hægðir eða þegar þú ætlar að halda í þér þvagi. Þá finnur þú að samdráttur á sér stað bæði að framan og aftan. Þú finnur að fingurnir verða fyrir þrýstingi frá vöðvunum í grindarbotninum. Vertu ánægð ef þú finnur þrýsting um fingurna – þá veistu að minnsta kosti, hvað það er að draga grindarbotnsvöðvana saman. Þú skalt gera það hægt og rólega en herða á smám saman meðan þú telur upp að tíu. Haltu þrýstingnum um stund og reyndu svo að slaka á, ósköp hægt og rólega. Þetta skaltu gera nokkrum sinnum á hverjum degi, og smátt og smátt geturðu farið að gera þetta án þess að hafa fingur í leggöngunum og finnur samt að þú dregur saman og slakar á.

Einnig getur þú fundið fyrir grindarbotnsvöðvunum með því að stöðva bununa við þvaglát, það er auðveldast í lokin en þegar þú ert komin upp á lag með Það getur þú fundið styrk grindarbotnsins með því að stoppa í miðri bunu.

Með því að auka samdráttinn í vöðvunum og lyfta grindarbotnsvöðvunum um leið, finnurðu fyrir því, sem kallað er „lyftuáhrifin”. Þær sem eru duglegar að draga saman geta einfaldlega byrjað á neðstu hæð, stansað á annarri hæð og haldið svo áfram upp á þriðju og fjórðu og síðan svolítið niður aftur! En þetta geturðu ekki fyrr en þú hefur náð verulega góðum tökum á þessum æfingum.

Við réttan vöðvasamdrátt átt þú að finna botn mjaðmagrindarinnar lyftast aðeins upp og inn á við. Þetta á að gerast án þess að aðrir vöðvar s.s. í rassi og lærum spennist líka. Andaðu eðlilega á meðan þú spennir vöðvana.

Þegar þú hefur náð tökum á æfingunum getur þú gert þetta þótt þú sitjir og sért að spjalla við fólk, meðan þú straujar, eða hvað annað sem þú ert að gera. Það er mikilvægt að komast hjá því að lenda í vandræðum í sambandi við þvaglát. Þvagleki við áreynslu er síður en svo sjaldgæft fyrirbæri, þ.e. þú missir þvag við líkamlega áreynslu t.d. að hnerra, hósta, hlæja, hlaupa og lyfta þungu. Ef þú ert vakandi fyrir þessu núna og stundar grindarbotnsæfingar stöðugt, þá gengur þetta allt vel. Ef þú hefur þvagleka og finnur ekki árangur af reglulegri þjálfun grindarbotnsvöðvanna eftir 2-3 mánuði, ættir þú að leita læknis til frekari skoðunar.

Gangi þér vel,

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir læknir