Spurning:
26 ára – kona
Sælar ljósmæður.
Ég er að ganga með mitt annað barn og hef áhuga á að tæma ristilinn áður en ég fæði. Þegar ég átti strákinn minn var hægðalyfi sprautað uppí endaþarminn sem tæmdi svo þarmana. Ég veit ekki hvaða lyf þetta er en fann eitt hér á vefnum sem gæti verið það sem heitir klyx. Er hægt að fá þetta lyf án lyfseðils og ef svo er, er þá e-ð sem mælir á móti því að ég geri þetta sjálf heima áður en ég fer á sjúkrahúsið þegar hríðir hafa byrjað? Er e-ð sérstakt sem ég ætti að varast ef ég geri þetta sjálf? Ég bý í Svíþjóð og var að spá í hvort þetta lyf heiti það sama hér?
Með þökk – 35 vikna bumba 🙂
Svar:
Sæl og blessuð.
Það er mjög trúlegt að þú hafir fengið Klyx í fyrri fæðingu. Þú getur keypt Klyx í apótekum í Svíþjóð án þess að hafa lyfseðil og það fylgja ágætar leiðbeiningar með. Það er í sjálfu sér ekkert sem mælir gegn því að þú gefir þér sjálf Klyx eða eitthvað sambærilegt efni heima hjá þér en það er heldur ekkert sérstakt sem mælir með því. Engar rannsóknir eru til sem staðfesta gagnsemi hægðalosunar fyrir fæðingu. Raunar hagar náttúran því þannig til að oft verður hreinsun rétt áður en fæðing hefst þ.e. konan hefur niðurgang eða mjög mjúkar hægðir.
Hægðalosun í fæðingu er viðkvæmt mál fyrir margar konur og finnst þeim tilhugsunin óaðlaðandi. Ég get þó fullvissað þig um að ljósmæðrum og fæðingarlæknum finnst þetta mjög eðlilegur hlutur og sjaldnast verður nokkur var við þetta nema ljósmóðirin.
Ég vona að þetta svari spurningu þinni og óska þér velfarnaðar
Þórgunnur Hjaltadóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.