Handkuldi

Spurning:

Sæl.

Mér leikur forvitni á að vita um fingrakulda eiginmannsins. Hann þarf lítið til að verða handkaldur og við það kólna fingurnir mikið og verða alveg hvítir, þ.e. eins og ekkert blóðstreymi sé til þeirra svo náhvítir eru þeir, þó ekki endilega allir fingur. Langan tíma tekur að fá hita í þá aftur. Hvað veldur?

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Samkvæmt lýsingu þinni er líklegast að það sem angri eiginmann þinn sé svokallað Raynaud´s fyrirbæri. Það er staðbundinn samdráttur í æðum sem veldur truflun á blóðstreymi. Algengast er að þetta gerist í fingrum en getur gerst í öðrum líkamshlutum. Viðkomandi líkamshluti fölnar og kólnar þegar æðarnar dragast saman og getur blánað í kjölfarið. Þegar blóðflæði kemst á að nýju verður líkamshlutinn rauður, þrútinn og heitur. Þetta ferli tekur mislangan tíma; frá nokkrum mínútum upp í klukkustundir. Verkir geta fylgt. Ástæða þess að þetta gerist getur verið kuldi, andlegt álag eða titringur en þetta getur einnig komið án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Reykingar hafa óæskileg áhrif. Oftast er þetta saklaust fyrirbæri en getur verið hluti af ákveðnum bandvefssjúkdómum eða tengt ákveðnum lyfjum eða eiturefnum. Slíkt ber að útiloka og því ráðlegt að leita til heimilislæknis. Meðferðin felst í að forðast þá þætti sem geta komið einkennunum af stað; halda vel á sér hita, nota hanska og reykja ekki. Lyfjameðferð er sjaldan nauðsynleg en möguleg í völdum tilfellum.

Lesa nánar um Raynaud´s sjúkdóm

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir.