Hjartaþræðingar

Heil og sæl,

Ég hef farið í 7 þræðingar þar sem sú sjötta var afgerandi góð, var 80-90 % stíflaður. 1.5 ári seinna fór ég í þræðingu vegna vanlíðunar og súrefnismettun 82 að meðaltali.

Eftir þá seinustu var súrefnismettunin 98-100, sem sagt fullkomin og líðan mín í dag mjög góð.
Ræddi þetta svo við hjartalækninn minn, hann sagði að ekkert hefði verið gert nema að taka myndir.???

Annar aðili sem ég þekki fór í þræðingu í fyrsta sinn (vonandi seinasta) eftir síendurtekna hjartastingi, þar var sama sagan allt í góðu síðan (2 ár+). Henni var sagt að þetta hefði bara verið myndataka???
En „myndatakan“ hjálpaði okkur gífurlega. Getið þið útskýrt þetta?
Kv og takk kærlega fyrir vefinn ykkar

Sæll

Einhvers staðar segir að trúin flytji fjöll en það er varhugavert að draga slíka ályktun í þessu tilviki. Einhver orsök er væntanlega fyrir batanum hvort það er vegna lyfjameðferðar eða breytingar á lífsstíl eða hvoru tveggja er þá líklegasta skýringin. Fáðu aðstoð með þetta hjá þínum meðhöndlandi lækni.

Gangi ykkur vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur