Höfuðkvalir og dofi?

Spurning:

26 ára – kona

Sælir doktorar. Mig vantar annað álit hjá ykkar fínu læknum.

Ég og fjölskyldan mín búum í Svíþjóð og þurftum á læknisaðstoð að halda um daginn þ.e.a.s. maðurinn minn. Það atvikaðist þanni að hann var í vinnunni og fékk mjög skyndilega miklar höfuðkvalir, hann sest niður og reynir að nudda staðinn sem verkurinn var á. Verkurinn var staðbundinn fyrir ofan hægra gagnauga. Skyndilega byrja fingur vinstri handar að dofna upp og smám saman öll hendin, og loks varirnar, tungan og kokið. Hann biður vinnufélaga sinn um að aðstoða sig og sá keyrir hann strax uppá bráðamóttöku.

Þegar þangað var komið var hann orðinn nánast meðvitundarlaus og var látinn leggjast beint í rúm- hann missti aldrei alveg meðvitund. Þeir tóku hjartalínurit og fullt af blóðprufum og lögðu hann svo inn fyrir nóttina.

Það var ekkert að sjá á hjartalínuritinu og ekki heldur a blóðprufunum.

Daginn eftir fer hann svo í sneiðmyndatöku af höfðinu sem kom eðlilega út.

Því næst stungu þeir nál í bakið á honum til að athuga þrýstinginn á mænuvökvanum, í ljós kom að hann var með of háan þrýsting á vökvanum ásamt of háum blóðþrýstingi og sendu þeir þá sýni í "akút" greiningu, ásamt blóði, og okkur var sagt að þetta gæti stafað af litlum heilablæðingum sem ekki sæjust á mynd. Allt kom eðlilegt útúr þessum prófum og þá var hann settur í einhverskonar röntgen þar sem efni var sprautað inní hann til að lýsa upp- þið vitið sjálfsagt meira en ég hvað þetta var. Hann fékk að fara heim um kvöldið og daginn eftir fengum við að vita að niðurstöður væru eðlilegar og að hann ætti að taka það rólega fram yfir páska og að einhver frá sjúkrahúsinu myndi hringja á næstu dögum og sjá hvernig hann hefði það.

Hann fékk tilfinninguna fljótlega aftur sama dag og hann lagðist inn, en dofnaði svo aftur stuttu síðar og svo gekk það til baka. Daginn eftir var hann enn með höfuðverk sem versnaði ef hann t.d. hóstaði. Nú er hann einkennalaus- fimm dögum síðar- og í gær var hringt frá spítalanum og okkur sagt að þetta væri sennilega ekki neitt og að hann væri bara útskrifaður og gæti farið til vinnu eftir páska og gert það sem hann er vanur.

Við erum svolítið ósátt við þetta og finnst við vera í lausu lofti.

Maðurinn minn hefur alltaf verið frískur og aldrei haft tilhneigingu til höfuðverkja eða neinna veikinda ef út í það er farið. Síðustu ár hefur hann aldrei unnið eins lítið og hann gerir núna hann vinnu frá 7- 4 og stundum á laugardögum. Það er engin utanaðkomandi eða innanaðkomandi streita sem gæti skýrt þetta og er hann að eðlisfari ekki stressaður maður.

Læknirinn sem við töluðum við sagði aðspurður að það væri eðlilegt að vera með of mikinn þrýsting á mænuvökvanum þegar maður væri með hausverk, ég hefði frekar haldið réttara að það væri eðlilegt að vera með hausverk þegar maður er með of mikinn þrýsting á mænuvökvanum. Hvað er orsök og hvað afleiðing? Því getum við ekki svarað og okkur finnst við skilin eftir með engin svör og eigum bara að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Við erum satt að segja skíthrædd og þráum að fá einhver svör. Er eitthvað sem þið getið ráðlagt? Mér þætti gaman að fá ykkar álit á þessu- eigum við bara að láta kyrrt liggja og halda áfram eða er eitthvað annað eða meira sem við getum gert að svo stöddu?

Ég vona að ég hafi gert mig skiljanlega. Takk Alma

 

Sæl Alma,

Já þetta er óhugguleg lýsing og ekkert skrýtið að þið séuð hrædd yfir þessu.

Hins vegar virðist mér af lýsingu þinni að búið sé að útiloka hættulegar orsakir fyrir þessum höfuðverk, s.s. heilablæðingar eða æxli. Hins vegar eru margar orsakir fyrir höfuðverk, þessi höfuðverkur gæti t.d. verið mígren og hafa þyrfti það í huga ef um endurtekin köst er að ræða. Ég held að þið ættuð nú að halda áfram ykkar striki en að sjálfsögðu leita læknis ef ber á þessu aftur.

Kveðja,

Einar Eyjólfsson, heimilislæknir.