Höfuðverkur á meðgöngu

Spurning:

Ég er gengin með 11 og 1/2 viku samkvæmt sónar en samkvæmt mínu tali þá ætti það að vera 14 vikur. En málið er ég hef verið með stöðugan höfuðverk síðastliðnar 3 vikur og svo fæ ég öðru hvoru náladofa í fingurnar. Ég tek það fram að ég hef fylgst með því hvort að einhver hindrun sé á blóðstreymi til fingranna með því að ég sitji eitthvað asnalega en svo er ekki.

Þetta er mín 4. meðganga og eignaðist ég síðast barn 08.12.99.

Með bestu kveðjum.

Svar:

Sæl.

Það er ekki óalgengt að konur þjáist af höfuðverk í byrjun meðgöngu og getur það verið hormónatengt. Einnig getur vökvaskortur leitt af sér höfuðverk því konur þurfa mikinn vökva til að byggja upp aukið blóðmagn á meðgöngunni. Láttu samt mæla hjá þér blóðþrýstinginn til að útiloka að hann sé orsakavaldurinn. Hvað varðar náladofann þá getur hann stafað af efnaskorti eða bjúg. Athugaðu að þú fáir nóg af kalki, magnesíum og kalíum í fæðinu því það getur haft áhrif á taugar og æðar.

Annars teldi ég nú best fyrir þig að ræða þetta við lækninn þinn í mæðravernd til að útiloka alvarlegri sjúkdóma.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir