Hreinsun endaþarms

Hvað er til ráða þegar erfitt er að hreinsa endaþarm, nota þarf endalaust af pappír þannig að sturta þurfi á milli til að varna að klósett stíflist og jafnvel komi smáblóð í pappírinn og endaþarmur verður aumur. Heimavið er vissulega hægt að fara í sturtu en ekki ef hafa þarf hægðir að heiman. Blauttissue má ekki fara í klósettið svo ég er ráðþrota. Hvað krem er best til að mýkja svæðið?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina,

Til eru fjölmörg krem hugsuð fyrir meðhöndlun húðar á þessu svæði og er mjög mismunandi á milli manna hvað þeim þykir henta sér best. Óhætt er að benda þér á að prufa AD krem, hafir þú ekki gert það þegar. AD krem fást í apóteki og hafa verið mjög vinsæl til meðhöndlunar á roða við endaþarm bæði hjá börnum og fullorðnum. Vel gæti reynst að nota AD krem og AD sink krem til skiptis eftir því hvernig húðin er þá stundina, en hefðbundið AD krem er mjög gott til að fyrirbyggja bruna á húð og AD sink er þá gjarnan nýtt þess á milli til að lina óþægindi vegna sviðinnar húðar á þessu svæði. Farðu gætilega í að bera ekki á of þykkt lag af AD sink kremi þar sem best er að reyna að halda svæðinu þurru eins og mögulegt er. Vel gæti reynst að nota barnapúður eða kartöflumjöl til þess að hindra að væta sitji við húðina, s.s. vegna svita.

Á flestum salernum er ruslatunna og því ætti að vera möguleiki fyrir þig að nýta þér blautþurrkur þegar þú ert á ferðinni. Mikilvægt er að nota sem hreinastar vörur þegar unnið er með svo viðkvæmt svæði, og er núorðið til töluvert úrval af slíkum blautþurrkum t.d. frá klósettpappírs- eða bleyjuframleiðendum.

Ég myndi hvetja þig til að velta því fyrir þér hvort þér þyki hægðirnar vera í góðum farveg eða hvort þær gætu verið að auka á vandann, t.d. með því að vera of harðar eða of linar. Einnig myndi ég mæla með því að þú prufaðir að skipta um tegund klósettpappírs, til þess að hann væri laus við auka- og bleikiefni og til þess að hann sé mjúkur án þess að leysast upp og erta svæðið frekar.

með kveðju,

Auðna Margrét Haraldsdóttir
Hjúkrunarfræðingur