Spurning
Mig langar að fá að vita hvað hægr er að gera við sólarexemi. Þannig er að maðurinn minn fær orðið alltaf útbrot og kláða í húðina þegar við erum í sólarlöndum, og verður svo slæmur að hann varla getur sofið á næturnar. Í apótekum á Spáni hefur hann fengið skaffað krem með hydrocortisoni og einhverskonar anthistamín töflur og það virðist slá á, en þá þarf hann að halda sig úr sólinni í nokkra daga. Einnig hefur hann prófað eitthvað sem fæst hér og kallast sólarspritt, en ekkert af þessu virðist koma í veg fyrir þessi óþægindi.
Hvað er helst til ráða? Er eitthvað hægt að gera sem fyrirbyggjandi aðferðir?
Svar
Þannig vill nú til að ég þekki þessi mál af eigin raun. Best er að sleppa sólinni algjörlega og forðast sólarlönd.
Í alvöru talað er það eina raunhæfa leiðin. Það sem er þó hægt að gera er að fara í cortison sprautur áður en haldið er til sólarlanda (það skaltu benda manninum þínum á að ræða við sinn lækni) Hitt er svo líka hægt að byrja að taka antihistamín töflurnar áður en haldið er af stað og reyna þannig að koma í veg fyrir að sólarexemið byrji. Þetta er mjög hvimleitt og erfitt og ekki eftirsóknarvert fyrir fólk með sólarexem að fara til sólarlanda. Cortison sprauturnar eru læknar ekki viljugir að gefa, en eins og þú eflaust veist þá valda t.d. sterakremin, eins og hann hefur verið að fá, húðþynningu og sterar (cortison og hydrocortison) yfirhöfuð ekki taldir vera af hinu góða.
Með óskum um gott gengi
Kveðja,
Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
Ritstjóri www.Doktor.is