Hvað er munnangur?

Spurning:

Komið þið sæl.

Ég fæ munnangur reglulega, eða á ca 2ja mánaða fresti og fæ ég stundum eitt tvö eða þrjú sár. Þau geta orðið um 8-9 mm í þvermál og vara í 5-8 daga.

Ég hef talað við heimilislækni, háls-, nef- og eyrnalækni og farið til sérfræðings á Tanngarði og mér skilst að lítið sé við munnangri að gera.

Ég fékk munnskol hjá einum sérfræðingnum til að reyna minnka stærð sáranna en það gerði lítið gagn. Þetta virðist ganga í erfðir því móðir mín er með þetta, systur mínar og dóttir mín.

Ég hef farið á vítamínkúr (aðallega c-vítamín) og er ekki frá því að það hafi dregið úr tíðni munnangursins. Einnig hef ég prófað allskonar munnskol sem hefur engum árangri skilað. Mér þætti vænt um að fá svar við eftirfarandi spurningum:

Hvað er munnangur og af hverju kemur það aftur og aftur?

Er hægt að losna við munnangur?

Með bestu kveðju og von um skjót svör.
Einn með angur í munni.

Svar:

Samkvæmt Íðorðasafni lækna er munnangur skilgreint sem sársaukafullt sár í munni með hvítri áferð, af óþekktum uppruna. Af þessu má sjá að munnangur er mjög vítt hugtak og getur verið af margvíslegum orsökum. Munnangur getur verið allt frá minniháttar ertingu til krabbameins í munni.

Munnurinn er viðkvæmur fyrir margskonar áreiti. Önnur líkamleg vandkvæði geta t.d. einnig valdið munnangri. Þó svo að flest munnangur séu saklaus og fari sjálfkrafa eru sum mjög alvarleg. Oft geta sár í munni hjálpað læknum við greiningu á undirliggjandi sjúkdómi. Nauðsynlegt er að leita lækis ef munnangur varir lengur en 1-2 vikur.

Einkenni geta verið: Eymsli, bólgur, erfitt að tyggja, eymsli við tannburstun, vægur hiti og sýnileg sár í munni.

Algengustu orsakir munnangurs (þar sem önnur líkamleg vandkvæði eru lítil sem engin) eru: áblástur í munni (Herpes simplex, í daglegu tali kallað frunsur) svokallað síendurtekið munnangur (aphthous stomatitis) Bæði áblástur í munni og síendurtekið munnangur hafa tilhneigingu til að koma í kjölfar álags og streitu. Aðrar orsakir geta t.d. verið kynsjúkdómarnir sárasótt og lekandi, sveppasýkingar, flatskæni og fleira.

Sár í munni geta einnig komið við ýmsar daglegar athafnir, s.s.: óvart er bitið í kinn, tungu eða vör eftir heimsókn til tannlæknis erting frá sterkum mat eða lyfjum sár vegna harkalegrar tannburstunar ofnæmi fyrir mat eða lyfjum og fl. Þó nokkuð margir fá frunsur. Þær eru af völdum Herpes simplex veirusýkingar. Ekki er enn hægt að losna við (drepa) veiruna úr líkamanum eftir að viðkomandi hefur sýkst. Á milli frunsuútbrota liggja veirurnar í dvala. Það er hægt að stytta tíma útbrotanna og minnka óþægindi með lyfjum (t.d. aciclovir eða penciclovir).

Við síendurtekið munnangur koma sár sem eru venjulega staðsett innan á kinnum eða vörum, á tungu, í koki eða innst í munni. Sárin geta verið sársaukafull í nokkra daga en læknast á 1-2 vikum.

Ekki er þekkt nein lækning við munnangri en hægt er að minnka óþægindi með lyfjagjöf s.s. staðdeyfilyfjum og sterum.

Orsakir síendurtekins munnangurs eru óþekktar en hugsanlegt er að skortur á B12 vítamíni, fólinsýru og járni hafi eitthvað með það að gera að munnangur brýst fram.

Mikilvægt er að leita læknis ef munnangur varir lengur en 1-2 vikur eða ef grunur leikur á undirliggjandi sjúkdómi.

Með kveðju,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur