Hvað er Reiters sjúkdómur?

Spurning:

Hvað er Reiters Syndrome? Hvernig eru einkennin og ef við á hvernig losnar maður við ófögnuðinn?

Svar:

Reiters sjúkdómur (eða syndrome) er tilkominn vegna óeðlilegrar svörunar líkamans við sýkingu sem veldur einkennum frá þvagrás, liðum, augum og húð. Algengast er að sjúkdómurinn smitist við kynmök og koma einkenni fram 1–2 vikum eftir smit, einnig er þekkt að hann komi í kjölfar ákveðinna niðurgangspesta en það er þó sjaldgæfara. Sjúkdómurinn er algengari í körlum en konum og er algengast að greina hann hjá karlmönnum á aldrinum 15–40 ára. Hvernig sjúkdómurinn verður til er ekki fullskýrt en vitað er að bæði sýking og ákveðinn vefjaflokkur sem er arfbundinn hefur þar áhrif.

Sjúkdómurinn er greindur út frá þeim einkennum sem hann veldur, en ekki eru í dag til nein sérhæfð próf vegna hans. Fyrstu einkenni eru yfirleitt sviði og sársauki við þvaglát og jafnvel útferð. Bæði konur og karlar geta verið einkennalaus þrátt fyrir sýkingu, en það er þó algengara meðal kvenna. Lágmallandi hiti getur fylgt. Nokkrum dögum, jafnvel vikum seinna koma fram liðbólgur sem oftast eru mest áberandi í hnjám, ökklum og mjöðm en sjást einnig í smáliðum í fótum og einnig geta komið fram verkir í mjóbaki vegna bólgu í liðamótum spjaldhryggjar. Þriðja einkenni sjúkdómsins er bólga í slímhimnu augans, þau einkenni eru oft væg og því auðvelt að missa af. Önnur einkenni sem geta komið fram eru bólgur í hásin og blettir á húð og í munni. Sjúkdómsgreining getur í mörgum tilfellum verið erfið þar sem einkenni koma fram á mismunandi tíma og getur því oft tekið langan tíma að fá rétta greiningu.

Ekki er til nein sérhæfð meðferð við Reiters sjúkdómi. Til að fyrirbyggja sjúkdóminn er ráðlegt fyrir alla sem ekki hafa fastan rekkjunaut að nota smokk við samfarir. Þegar einstaklingur greinist með sjúkdóminn eru notuð bólgueyðandi lyf til að minnka liðbólgur og sýklalyf eru gefin til að útrýma sýkingu ef hún er til staðar, það á þó ekki við ef sjúkdómurinn kemur í kjölfar niðurgangspestar. Ef verkir í liðum eru langvinnir, getur sjúkraþjálfun einnig hjálpað. Flestir ná sér af sjúkdómnum á 3–4 mánuðum, en endurkoma er nokkuð algeng eða í u.þ.b. helmingi tifella. Því er mikilvægt fyrir þá sem greinst hafa með sjúkdóminn að halda ónæmiskerfinu sem sterkustu með því lifa heilbrigðu lífi, sofa vel og borða holla fæðu.

Ég vona að þetta svari fyrirspurn þinni.

Gangi þér vel,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.