Hvað er Vertical Blast 2000?

Spurning:
Getur þú gefið mér upplýsinar um lyfið Vertical Blast 2000 sem að er að öllum líkindum innihaldsefni í Creatini eða líku fæðubótarefni, það var stoppað í tolli.

Svar:
Vertical Blast 2000 er hluti af gríðarlega umfangsmikilli flóru fæðubótarefna sem einkum eru framleidd í Bandaríkjunum og er ætlað að hafa alls konar áhrif á líkamann, sem sum hver eru býsna langsótt og jafnvel ótrúleg. Samkvæmt yfirlýsingum framleiðanda inniheldur þetta fæðubótarefni m.a. kreatín, kondróitín súlfat og glúkósamín, sem allt eru vel þekkt fæðubótarefni. Þar að auki á þetta að innihalda einhver dularfull efni sem þeir kalla HMP og MSM. Ekkert er getið um magn eða hlutfall þessara efna í vörunni. Eftirlitssvið Lyfjastofnunar annast eftirlit með innflutningi á fæðubótaefnum og stöðvar innflutning þeirra sem ekki standast íslenskar reglur. Vafalaust hefur innflutningurinn verið stöðvaður þar sem innihaldsefnin og magn þeirra er ekki fyllilega þekkt. Þess ber að geta að reglur um framleiðslu, sölu og auglýsingar fæðubótaefna eru mjög ólíkar í Bandaríkjunum og Evrópu. Reyndar eru þær líka ólíkar innan Evrópu. Vegna neytendaverndar eru reglur frekar strangar hér á landi um hvað má flytja inn og selja af fæðubótarefnum. Persónulega finnst mér harla ótrúlegt að hægt sé að taka inn einhver efni sem valda því að stökkkraftur upp á við aukist um einhvern fjölda sentimetra.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur