Spurning:
Góðan dag.
Mín fyrirspurn er tengd bjúgmyndun á höndum. Ég er ekki barnshafandi, er 38 ára gömul með stöðuga vöðvabólgu í öxlum. Er eðlilegt að ég sé þar af leiðandi með mikinn langvarandi bjúg í höndum og andliti aðallega, en er sjálfsagt á fótum líka þó ég taki ekki eftir því nema þegar mér verður mjög heitt.
Með von um svar.
Svar:
Sæl.
Bjúgur safnast mest á fætur, kringum ökkla ef viðkomandi er á fótum. Bjúgurinn er mestur þar á kvöldin. Yfir nóttina dreifist bjúgurinn og sýnir sig mest í andliti og jafnvel á höndum á morgnana áður en farið er á fætur. Best er að finna bjúg með því að þrýsta nokkuð fast með fingri neðst framan á fótlegginn að kveldi. Ef bjúgur er til staðar myndast dæld eftir fingurinn sem þrýst er með. Vöðvabólgu getur fylgt þroti í höndum, sérstaklega ef vöðvabólgan kemur af mikilli vinnu með höndum og handleggjum og lagast þá við hvíld eða breytt vinnulag.
Kveðja,
Bryndís Benedktsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum, sérsvið svefnrannsóknir