Hvenær er barn búið að fá nóg að drekka?

Spurning:
Ég og kærasta mín greinir á um hversu mikið á að gefa dóttur okkar. Kærastan vill skammta henni mjólk og passa að hún gefi ekki of mikið. Ég vil að hún drekki einsog hún vill. Í gær skammtaði kærasta mín dóttur okkar og sú litla sofnaði seint og var að gráta. Hún var ekki ánægð fyrr enn hún fékk meira að drekka. Hvenær er barnið búið að fá nóg? Getur maður gefið því of mikið?

Svar:
Af bréfinu má ætla að barnið sé ekki á brjósti. Ef barnið er að fá þurrmjólk þarf að passa vel að blanda hana rétt eftir leiðbeiningum á umbúðunum og fara þar eftir þyngd barnsins fremur en aldri. Barn sem er t.a.m. 4 kíló þarf u.þ.b. 700 ml. af mjólk á sólarhring. Það getur þó verið breytilegt og stundum þarf barnið meiri vökva, t.d. ef það hefur svitnað eða grátið mikið. Þá getur verið gott að gefa því smávegis af soðnu vatni þynnri mjólkurblöndu í pelann til að svala þorstanum. Börn taka líka vaxtaspretti og eru þá svengri en ella í nokkra daga. Það gerir barninu ekkert til að gefa því að vild en pelabörnum er hættara við að fitna um of heldur en brjóstabörnum. Notið því ekki pelann sem lausn á öllum kvörtunum barnsins – stundum vantar bara knús og fullvissu um að mamma og pabbi séu á staðnum.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir