Hvenær getur ég orðið ólétt aftur eftir fósturlát?

Spurning:

Sæl og blessuð.

Þannig er mál með vexti að ég missti fóstur í febrúar sl. og var frekar fljót að jafna mig líkamlega en andlega hliðin er enn að jafna sig. Nú er ég þannig að mig langar svo að verða ólétt aftur og það er svo mörg einkenni sem benda til þess en samt finnst mér það líka bara vera ímyndun. Það sem mig langaði að fá að vita er hvenær ég get orðið ólétt aftur? Er kannski ekki æskilegt að byrja að reyna strax aftur? Hvað er tíðarhringurinn yfirleitt lengi að komast á rétt ról aftur?

Með kveðju, og þökk fyrir frábæran vef.

Svar:

Sæl.

Tíðahringurinn kemst yfirleitt strax á rétt ról eftir fósturlát. Þú getur orðið þunguð strax í fyrsta tíðahring eftir fósturlát en það er talið ráðlegt að bíða með nýja þungun í u.þ.b. 3 mánuði til að lofa líkamanum að jafna sig. Andlega hliðin er misfljót að koma til og ekkert óeðlilegt að maður sé soldið dapur í nokkrar vikur, jafnvel mánuði, eftir fósturlát, sérstaklega ef það hefur verið langt gengið og barnsins beðið lengi. Ef þú ert orðin þunguð nú þegar skaltu taka vítamínin þín (sérstaklega fólínsýru) og fara vel með þig í byrjun þar til meðgangan er komin vel af stað. Það er nefnilega dálítið aukin hætta á fósturláti hafi maður misst fóstur nýlega.

Vona að þetta gangi allt vel hjá þér,

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir