Hvenær má fara í sund eftir fæðingu?

Spurning:
Halló.
Mig langaði að vita hvenær væri óhætt fyrir konur að fara í sund eftir barnsburð? Hvenær má fara með barnið í sund?

Svar:
Ekki er mælt með að fara í sund fyrr en ca. 6 vikum eftir fæðingu. Fram að þeim tíma er leghálsinn ekki nægilega lokaður þannig að bakteríur eiga greiðan aðgang upp í legið þar sem sárið eftir fylgjuna er einnig og tekur ca. 3-6 vikur að gróa. Í sundi þarf að auki að gæta að því að ekki sé mikill kuldi á brjóstunum því þeim hættir þá við að fá stíflur.

Hvað varðar að fara með lítið barn í sund þá getur það varla talist mjög hollt fyrir lítið barn að svamla um í klór- og bakteríublönduðu vatni með bakteríum úr öllu mögulegu fólki sem það þar að auki drekkur. Einnig eru lítil börn mjög viðkvæm fyrir kulda og geta auðveldlega ofkælst og króknað í vatni sem er minna en 37 gráðu heitt. Því eru almenningssundlaugar ekki æskilegir staðir fyrir lítil börn en það er mögulega í lagi að fara með barnið í ungbarnasund í heitari laug en venjulegu sundlaugarnar eru eftir að það er orðið 3 mánaða.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir