Hvít Blóðkorn

Fyrirspurn:

Hvað getur maður gert til að auka hvítu blóðkornin ?

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Hvít blóðkorn eru sérhæfðar frumur í blóði sem sjá um að eyða sýklum, aðskotaefnum úr líkamanum eða líkamspörtum, svo sem æxlum. Auk þess stuðla sum þeirra að því að sár grói. Þau eru stærri en rauð blóðkorn og geta ólíkt þeim farið út úr æðakerfinu í aðra líkamsvefi þar sem þeirra er þurfi.

 

Hvít blóðkorn er í raun samheiti yfir nokkrar tegundir fruma sem eiga það sameiginlegt að vera allar hluti af ónæmiskerfinu. Þær  myndast upphaflega í beinmerg en sérhæfa sig svo(til dæmis átfrumur og eitilfrumur) í mismunandi hlutverkum og líkaminn geymir þær hér og þar til dæmis í eitlum.

 

Verði líkaminn fyrir innrás veira/baktería (sýking) hleypir líkaminn þessum frumum út í blóðrásina og þá er talað um að vera með hækkun á hvítum.

 

Þannig vill maður ekki vera með hækkun á hvítum blóðkornum (of mikið) vegna þess að þá er maður líklega sýktur en um leið vill maður auðvitað að hvítu kornunum fjölgi til að ráðast á sýkinguna.

 

Á þessu sést að það er ekki beinlínis svo einfalt eða æskilegt að fjölga hvítum blóðkornunum sjálfum heldur þarf maður að styrkja ónæmiskerfið og þá getur það unnið sín verk með eðlilegum hætti.

 

Ónæmiskerfið er afar flókið fyrirbæri en rannsóknir hafa sýnt að við getum sjálf haft heilmikil áhrif á ónæmiskerfið með því að borða hollan mat, hvílast og merkilegt nokk vera jákvæð og tryggja vellíðan okkar sjálfra. Þekkt er að þeir sem líður vel og eru ánægðir með sig og sitt verða sjaldnar veikir heldur en þeir sem hafa skerta sjálfsmynd eða líður illa.

 

 

Vona að þetta útskýri eitthvað fyrir þér

 

 

Guðrún Gyða, hjúkrunarfræðingur