Imigram við mígreniköstum?

Spurning:
Ég fékk nýlega Imigran hjá taugalækni vegna mígrenikasta sem hafa hrjáð mig í mörg ár. Töflurnar virka og þetta er er allt annað líf.

Ég fór að skoða betur upplýsingarnar sem fylgja lyfinu (þær eru á norsku) og þar stendur (ef ég skil þetta rétt) að ef maður þolir ekki súlfalyf þá á maður ekki að taka Imigran. Ég hef tekið súlfalyf, fékk útbrot og vanlíðan og læknir lét mig hafa Teldanex sem sagði að ég væri með "týpísk" einkenni súlfaofnæmis. Þegar ég skoðaði upplýsingar um Imigran á Doktor.is sá ég ekkert um þetta.

Er mér óhætt að taka Imigran áfram þegar ég fæ mígreni eða ætti ég að biðja lækninn um eitthvað annað?

Vega kostir þess að Imigran slær verulega á höfuðverkinn þyngra en áhættan við að taka lyfið þó ég sé með ofnæmi fyrir súlfa?

Er eitthvað annað til sem hefur svipaða virkni og Imigran?

Svar:
Það er rétt að varað er við að þeir sem hafa þekkt ofnæmi fyrir súlfalyfjum noti Imigran (súmatriptan) þar sem líkur virðast benda til að þeim sé hættara við að fá ofnæmi fyrir lyfinu. Litlar upplýsingar eru til um þetta.
Þessi hætta virðist geta fylgt öðrum lyfjum úr sama flokki, en ekki er auðvelt að henda reiður á þessu þar sem ekki er lögð mikil áhersla á þetta krossofnæmi.
Ekki er því ástæða til bráðra aðgerða en ég mæli eindregið með því að þú ræðir þetta við taugalækninn og hann skeri úr um það hversu raunhæf þessi hætta á ofnæmi er. Ekki er ólíklegt að hann mæli með því að vera meðvitaður um hættuna á ofnæmi og hætta að nota lyfið við fyrstu einkenni eins og útbrot og þ.h.

Önnur lyf í sama flokki eru:
Almogran (almótriptan)
Maxalt og Maxalt smelt (rizatriptan)
Relpax (eletriptan)
Zomig og Zomig Rapimelt (zolmítriptan)

Kveðja,
Finnbogi R. Hálfdánarson
Lyfjafræðingur