Inderal – aukaverkanir

Spurning:

Sæll Jón Pétur.

Fyrir u.þ.b. 2 vikum byrjaði ég að taka inn lyf við of háum blóðþrýstingi. Ég hef haft tilhneigingu til að fá hækkaðan blóðþrýsting undanfarið ár og sl. vor tók ég annað lyf í sama tilgangi í u.þ.b. 2 mánuði. Lyfið sem ég fékk nú heitir Inderal. Það á einnig að draga úr krafti mígrenikasta sem ég hef barist við frá 17 ára aldri og hafa verið að versna.

Ég er 35 ára, 168 cm. 53 kg. þannig að varla telst ég til „áhættuhóps“ hvað blóðþrýstingshækkun varðar. Að vísu er ég undir miklu álagi í vinnu, er einstæð móðir með 1 barn, reyki (alltof mikið) og tek pilluna. Eru þetta ekki aðrir áhættuþættir?

Það sem mest angrar mig núna eftir að ég hóf inntöku Inderal, er nær stöðugur svimi, þó missterkur, en stundum finnst mér ég varla geta gengið um og finn fyrir máttleysi og ógleði. Eins sef ég mjög illa og svitna óeðlilega mikið á nóttunni.
Spurning mín til þín er: Getur lyfið valdið þessum aukaverkunum? Á ég að þrauka og halda áfram að taka inn lyfið og bíða þess að líkaminn aðlagist? Er skammturinn mögulega of stór? Ég tek lyfið x3 á dag.

Með þökk fyrir lesturinn og von um góð ráð.

Svar:

Það er rétt, Inderal er notað við bæði háum blóðþrýstingi og til varnar mígreni. Þú spyrð í lokin hvort hugsanlega sé skammturinn of stór. Það er vel hugsanlegt. Miðað er við 160 mg á dag sem byrjunarskammt sem má síðan auka ef þarf. Áhættuþættir fyrir háan blóðþrýsting eru m.a. (sjá Doktor.is): fjölskyldusaga um hjarta- og æðasjúkdóma t.d. háþrýsing og kransæðastíflu offita reykingar sykursýki nýrnasjúkdómar ofneysla á áfengi feitt og saltað fæði lítil hreyfing hátt kólesteról í blóði lyf t.d. megrunarpillur. Þú kvartar um svima, máttleysi, svefntruflanir, ógleði og nætursvita. Þreyta, svimi, ógleði, svefntruflanir og ofsviti eru allt þekktar aukaverkanir af Inderal. Þannig að líklegt er að lyfið eigi þarna hlut að máli. Það er sjálfsagt að reyna lyfið í allavega nokkrar vikur, þ.e.a.s. ef óþægindin eru ekki þeim mun meiri af töku lyfsins. Ef þetta gengur ekki má alltaf fara aftur til læknis og fá lyfjameðferðinni breytt.

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur