Kláði á meðgöngu

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég geng með þriðja barnið mitt og mig hefur klæjað í húðina frá því að ég var komin fimm vikur á leið og núna er ég gengin 28-29 vikur og er ennþá að drepast úr kláða. Hann er verstur á kvöldin og næturnar, stundum get ég ekki sofið vegna kláða. Hvað get ég gert í þessu?

Svar:

Sæl.

Ég teldi skynsamlegast hjá þér að leita til húðsjúkdómalæknis vegna þessa kláða. Það er ekki endilega víst að hann tengist meðgöngunni á nokkurn hátt. Þetta gæti t.d. verið kláðamaur. Hann er verstur á nóttinni. Ef um er að ræða kláða sem tengist meðgöngunni vegna skertrar hreinsigetu lifrarinnar, gerist það venjulega ekki fyrr en á síðasta þriðjungi meðgöngunnar. Ræddu þetta við ljósmóður og lækni í mæðraverndinni. Til eru kláðastillandi lyf en ekki er æskilegt að taka þau á meðgöngu. Þú getur prófað að baða þig upp úr matarsódalausn eða bera hana á líkamann þar sem klæjar mest. Svo getur verið gott að kæla sig t.d. með kalmínáburði sem fæst án lyfseðils í apótekinu. Passaðu líka upp á að svitna ekki mikið því það espar upp kláðann. En fyrst og fremst skaltu leita til læknis. Ef til vill getur læknirinn í mæðraverndinni greint þetta eða komið þér fljótt til húðsjúkdómalæknis.

Gangi þér vel.
Dagný Zoega, ljósmóðir