Spurning:
Góðan dag.
Ég er með vandamál sem lýsir sér þannig að mig klæjar rosalega í endaþarminn. Svo kemur oft svona hvít skán í kringum endaþarminn sem lyktar skringilega, þegar þetta er verst á ég erfitt með að sofna. Það getur stundum verið sársaukafullt að hafa hægðir og stundum kemur blóð í pappírinn. Ég hef verið með þetta í 4-5 ár og farið 2x til læknis. Hann sagði að þetta gæti verið gyllinæð og sendi mig heim með smyrsl. Hvað heldur þú að þetta geti verið og er hægt að gera eitthvað við þessu?
Svar:
Eins og þú lýsir þessu þá er líklegast ,,sprunga" eða sár við endaþarmsopið. Sárið grær á milli en opnast svo ef hægðir eru harðar. Einkennin eru þau að það er gjarnan sárt að hafa hægðir, það blæðir oft úr sárinu og eins og úr sárum annars staðar á líkamanum kemur ,,vessi" úr því. Þessi vessi er ertandi og veldur kláða.
Það er mikilvægt að skoða þetta vel, staðfesta sárið og beita viðeigandi meðferð. Mikilvægt er m.a. að halda hægðunum alltaf mjúkum til að forða því að þessi sár opnist aftur og aftur. Ég legg áherslu á að sárið sé staðfest með endaþarmsskoðun.
Kveðja, Ásgeir The