Klíningur eftir hægðalosun?

Spurning:
Hvað getur valdið því að endaþarmur verður saurugur á milli hægða? Ég er með hvimleitt vandamál, ég hef eðlilegar hægðir á hverjum degi, en þess á milli hef ég orðið þess var að saursmit virðist koma út úr endaþarmi, þannig að 2-3 á dag verð ég að þurrka af (skeina) til að forðast ólykt og skítugar nærbrækur. Ég vinn skrifstofuvinnu, er ca. 25 kg í yfirvigt og hef farið 2-3 sinnum í viku í líkamsrækt síðustu 6 mánuði.

Svar:
Sæll.

Vandamálið sem þú lýsir er algengt og hvimleitt og kemur fyrir hjá konum og körlum á öllum aldri. Um er að ræða saurklíning eftir hægðalosun og saursmit á milli hægða. Þetta getur stafað af mataræði þar sem hægðirnar formast ekki nægilega og einnig getur endaþarmsopið slappast þannig að það heldur ekki nægilega vel við þannig að hægðirnar leka. Þú þyrftir helst að fara í skoðun hjá meltingarsérfræðingi en stundum þarf að gera endaþarmsskoðun með þreyfingu upp í endaþarm og jafnvel skoðun með speglunartæki sem er fremur einföld og fljótleg rannsókn. Með þessu er hægt að útiloka sjúkdóma eins og bólgur ofl. Til að byrja með myndi ég reyna trefjaduft sem fást í apótekum án lyfseðils, s.s. Metamucil, Husk, Vi-Siblin eða Colon-Care, en þau forma hægðirnar þannig að klíningur og leki geta minnkað eða horfið.

Bestu kveðjur

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum