Konan mín vill skilnað?

Spurning:
Hvað á ég að gera konan mín vill skilnað það hefur staðið til lengi og skyndilega sendi hún mér sms skilaboð um að hún væri búin að fá sér íbúð og væri flutt með börnin , þetta var hrikalegt áfall, er mjög svo niðurbrotinn,   hef einu sinni reint að kála mér, finn engan tilgang í lífinu.

Svar:
Það lítur út fyrir að konan sé ákveðin og ef til vill er of seint að gera nokkuð í því máli. Hins vegar má búast við einhverju bakslagi hjá henni og þá má vera að hún vilji ræða málin. En hvort sem þið náið saman eða skiljið er mikilvægt að standa rétt að málum og fá aðstoð. Skilnaður er mikið áfall og því má líkja við missi vegna dauðsfalls. En skilnaður er þó erfiðari að því leyti að sá sem fór er alltaf að birtast manni aftur og aftur en þó nær maður ekki til hans. Svo eru börn í spilinu hjá ykkur og það gerir þetta allt miklu sárara og flóknara. Það er mikilvægt að koma á fastmótuðum reglum um umgengni svo það þurfi ekki að deila um hana í hvert sinn.

En lífið er ekki búið þótt það hafi verið kippt undan þér fótunum með þessum hætti. Þú hefur enn skyldum að gegna gagnvart börnunum og nú þurfa þau e.t.v. meira á þér að halda en nokkru sinni. Ef þú ákveður að flýja aðstæður ertu að leggja enn meira á þeirra herðar og ég vona að þú sért maður til að gera það ekki. Þá er það tilgangurinn í lífinu. Framtíð þín er hrunin eins og þú sást hana fyrir þér en það er ekki þar með sagt að hún þurfi að vera svört. Þegar þú hefur náð að jafna þig nærðu gleði þinni á ný og ef til vill höndlarðu hamingju á þann hátt sem þig óraði ekki fyrir. Ég trúi ekki að þú hafir lifað í mikilli sælu fyrst svona er komið. Hafðu það hugfast þegar þú harmar að allt sé ekki eins og áður. Þú segist hafa reynt sjálfsvíg og það bendir til þess að hamingjan hafi ekki verið allsráðandi í þínu lífi. Nú þarftu að stokka spilin upp á nýtt og finna þér nýjan tilgang, eða nýjar leiðir að tilgangnum.

Með sálfræðiaðstoð geturðu lært að fóta þig að nýju, fengið góð ráð sem hjálpa þér að ná gleði þinni á ný. Innst inni veistu auðvitað að öllu er ekki lokið. En þegar maður er í svona áfalli er erfitt að sjá skóginn fyrir trjánum. Fáðu aðstoð, leitaðu þér hjálpar. Sálfræðingur getur skoðað tilfinningar þínar og hugsanir með þér og hjálpað þér að verða jákvæðari á lífið og tilveruna. Þessar aðstæður geta verið upphafið að betra lífi ef þú heldur rétt á spilunum. Það versta sem þú getur gert er að velta þér upp úr neikvæðum hugsunum og bölsýni, einn í þínu horni. Lífið er ekki eins og þú vilt hafa það og þá er um að gera að breyta því. Fáðu aðstoð, einhvern sem getur bent þér á hvað þú getur gert, hvað þú átt, hvaða möguleikar eru í stöðu þinni. Mundu svo að borða, þótt þú hafir ekki lyst, fara að sofa, þótt þú sért ekki syfjaður, fara á fætur, þótt þú viljir sofa, hreyfa þig (fara í sund, göndu, líkamsrækt, stunda íþrótt) og fara út á meðal fólks. Talaðu við vini og ættingja og fáðu endilega aðstoð sálfræðings.

Gangi þér vel.
Reynir Harðarson sálfræðingur S: 562-8565