Léttist ekki neitt?

Spurning:
Ég á við mikið offituvandamál að stríða, þarf að losa mig við ca. 60kg. Síðan fyrsta nóv. hef ég verið að stunda líkamsrækt 4-8 sinnum í viku, fer í brennslu, bæði sjálf og í tímum hjá þjálfurum og fer eftir lyftingarprógrammi sem einkaþjálfari gerði fyrir mig. Ég fer aldrei sjaldnar en þrisvar sinnum í brennslu á viku og þá er það brennsla í lágmark klukkutíma og eins er ég að lyfta aldrei minna en klukkutíma þegar ég fer.
Ég er búin að taka mjög mikið til í mataræðinu, taka helling út og bæta öðru við í staðinn, ég borða örugglega ekki nema einn þriðja af því sem ég borðaði áður (samt er ég enn að borða of mikið). Ég borða ekki nammi, ég drekk aldrei gos, ég drekk áfengi einu sinni á ári, ég borða aldrei á kvöldin, ég borða mjög sjaldan snakk. Þrátt fyrir þessar breytingar og þennan dugnað núna í fjóra mánuði hef ég ekki lést um nema 3 kg. HVAÐ ER AÐ?
Mér finnst þetta ekki heilbrigt hvað þetta gengur ekkert, miða við hvað ég er geðveikt dugleg og miða við það að ég hef aldrei verið svona dugleg áður en samt alltaf lést mun hraðar þegar ég tek mig á.:(:(:(
Ég er svo ákveðin í að geta þetta sjálf núna á réttan hátt en þá gerist ekki neitt.

Svar:

Sæl,
Það eru engir töfrar þegar kemur að því að léttast… það er bara gamla góða formúlan… borða minna en þú brennir.   
 
Mér finnst líklegt að þú sért búin að bæta á þig nokkrum vöðvamassa sem er gott því þá ertu að auka grunnbrennsu líkamans.  2 kg á mánuði í þyngdartapi er fínt því þá er líklegt að þú bætir þyngdinni ekki á þig aftur. Það hljómar e.t.v. ekki mikið en það myndi gera 24 kg á ári og 48 kg á tveim árum!  Það er betra að fara hægt og örugglega en hratt og gefast upp eins og þú vafalaust þekkir af eigin reynslu. 
 
Ef þú vilt fá nákvæmari ráðleggingar og mat á því hversvegna þú léttist ekki hraðar (ath. ekki raunhæft að léttast hraðar en 1kg á viku) myndi ég ráðleggja þér að leita til fagfólks, t.d. einkaþjálfara eða næringarfræðings. Gott væri að þú myndir  fylla út matardagbók í ca 2 vikur áður til að átta þig betur á neysluvenjum þínum og til að sýna þjálfaranum. Dagbók yfir þjálfunina þína hjálpar einnig mikið.  
 
Haltu ótrauð áfram að æfa og að huga vel að neysluvenjum þínum og þetta kemur allt með kalda…. 🙂
 
Gangi þér vel.
kv. Ágústa.