Stundum verð ég mjög viðkvæm fyrir allri lykt, get td ekki komið inn í matvöruverslanir. Þetta er öll möguleg lykt sem veldur vanlíðan niður í lungu og röddin verður rám og dettur úr. Ég get jafnvel fundið langar leiðir og leitað hana uppi í sumum tilfellum. En þegar þessi viðkvæmni er yfirstaðin finn ég sumt af þessu allsekki en er samt alltaf viðkvæm fyrir lykt . Of langt mál yrði að telja upp allt sem ertir öndunarfærin og raddböndin þegar ég er viðkvæm og þá get ég alls ekki verið innan um fólk td hef ég þurft að sleppa jarðarför hjá nánum fjölskyldumeðlimi. Getið þið frætt mig um hvað veldur þessu.
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Lyktarofnæmi og lyktaróþol hefur aukist mikið síðustu áratugi með aukinni notkun ilmefna í alls kyns neysluvörum. Ilmefni eru sett í margar vörur allt frá nær öllum snyrtivörum til uppþvottalögs,þvottaefna,kerta og skreytinga. Ofnæmi og óþol getur bæði birst í öndunarfærum og með útbotun á húð. Það er engin lækning til en ofnæmislyf eins og antihistamin og steraspray geta hjálpað til við að halda niðri einkennum. Best er að sleppa notkun á öllum vörum sem innihalda ilmefni og biðja fólk í nærumhverfi að nota ekki sterk ilmefni. Skoða pakkningar og leita að ilmefnalausum vörum en stundum eru náttúruleg ilmefni í vörum sem sagðar eru ilmefnalausar og geta þau líka framkallað einkenni þó hugsanlega vægari.
Það borgar sig fyrir þig að fá viðtal hjá ofnæmislækni sem getur metið ástand þitt og skrifað út viðeigandi lyf.
Gangi þér vel,
Guðrún Ólafsdóttir,
hjúkrunarfræðingur