Má ég taka Cipralex á meðgöngu?

Spurning:
Ég er á þunglyndislyfi sem heitir Cipralex og í bæklingnum sem fylgir með lyfinu stendur að það sé ekki ráðlagt fyrir óléttar konur að taka lyfið. Ég er búin að vera að taka þetta lyf í smá tíma og líkar mjög vel við það, ég hef reynt önnur lyf en það er ekkert sem virkar jafn vel á mig og þetta. En málið er að ég og kærastinn minn erum að pæla í því að reyna að eignast barn, svo að mín fyrirspurn er: Af hverju geta óléttar konur ekki tekið þetta lyf? Og get ég kannski haldið áfram að taka það á meðan ég er ólétt, hver er áhættan? Ef ekki, er eitthvað annað lyf sem er svipað og ég get þá tekið á meðan ég er ólétt?

Svar:
Ég læt fylgja hér með grein af heimasíðu doktor.is sem fjallar almennt um lyf á meðgöngu og brjóstagjöf.
Almennt er hægt að segja um flest ný og nýleg lyf að ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar um það hvort lyfið hafi áhrif á fóstur, án þess að neitt bendi til að það sé ekki óhætt. Þetta er raunin með lyfið Cipralex og flest lyf í flokki þunglyndislyfja.
Ekki eru gerðar lyfjarannsóknir á ófrískum konum. Upplýsingarnar koma því annars vegar frá rannsóknum á dýrum, sem skera alls ekki úr um hvort lyfið hafi áhrif á fólk og hins vegar með upplýsingum um þær konur sem hafa tekið lyfið á meðgöngutíma þrátt fyrir að ekki hafi legið fyrir nægilegar upplýsingar um öryggi lyfjatökunnar.
 
Þrátt fyrir þessa aðvörun getur verið að upplýsingar séu fyrirliggjandi um að notkunin sé hættulaus. Þú ættir því að ráðfæra þig við lækninn þinn um þetta. Hann ætti að hafa allar nauðsynlegar upplýsingar það hvað best sé að gera. Vel má vera að hann meti áhættuna á fóstrið vegna sjúkdómsins meiri en vegna lyfsins.
 

Lyf og brjóstagjöf

Mjög oft kemur upp það vandamál hvort lyfjanotkun á meðgöngutíma geti skaðað fóstrið eða hvort lyfjanotkun konu með barn á brjósti geti skaðað barnið. Hér á eftir verður fjallað um þessi vandamál sem stundum eru talsvert flókin. Einnig er gerð grein fyrir þeim lýsingum sem notaðar eru í lyfjaskránni.

Þegar lýst er einstökum lyfjum er að jafnaði sérstaklega getið um öryggi þeirra á meðgöngutíma og við brjóstagjöf. Lyfin eru flokkuð eftir því hve örugg þau geta talist. Oft er vandasamt að flokka lyf á þennan hátt en það hefur verið gert hér eftir bestu vitund og samkvæmt öruggustu heimildum sem völ er á.

Í lyfjaskránni er stundum sleppt texta um meðgöngu og brjóstagjöf. Í slíkum tilvikum er venjulega um að ræða lyf sem eru í eðli sínu þannig, eða eru notuð á þann hátt, að þau hljóta að teljast hættulaus á meðgöngutíma eða fyrir barn á brjósti.

Lyf á meðgöngutíma

Svo virðist sem aukin lyfjanotkun á meðgöngutíma hafi almennt í för með sér aukna hættu á fósturskemmdum. Mest hætta á fósturskemmdum er á fyrstu þremur mánuðum meðgöngutímans og þó sérstaklega á 2. og 3. mánuði (samkvæmt venju er þetta reiknað frá upphafi síðustu tíða). Á þessu viðkvæma skeiði fer öll mótun líffæra fóstursins fram. Skaðleg áhrif á fóstrið á þessu tímabili leiða oftast til fósturdauða og fósturláts en lifi fóstrið þau af er hætt við að það hafi orðið fyrir skemmdum.

Fósturskemmdir geta að sjálfsögðu stafað af mörgu öðru en lyfjanotkun en mikilvægt er að draga úr þeim þætti eins og unnt er með mikilli aðhaldssemi. Það á ekki að nota lyf á meðgöngutíma nema það sé bráðnauðsynlegt og helst aldrei nema í samráði við lækni. Á fyrstu þremur mánuðum meðgöngunnar gildir þessi aðhaldssemi um öll lyf, vítamín, steinefni, bólusetningar og að sjálfsögðu áfengi.

Einungis fá lyf eru þekkt að því að valda fósturskemmdum en mörg liggja undir grun um að geta valdið slíkum skemmdum. Fyrr á tímum var lítið hugsað um þessa hættu og verðandi mæðrum voru gefin alls kyns lyf. Þannig fengust mikilvægar en stundum dýrkeyptar upplýsingar um viðkomandi lyf. Þetta viðhorf gjörbreyttist upp úr 1960 í kjölfar Talidomid slyssins þegar yfir 10.000 börn fæddust verulega vansköpuð vegna þess að mæðurnar höfðu tekið svefnlyfið Talidomid. Eftir þessa reynslu urðu menn mun íhaldssamari í lyfjagjöf á meðgöngutíma en áður og einnig var farið að gera miklu strangari kröfur en áður um tilraunir og rannsóknir á nýjum lyfjum. Af þessum ástæðum má segja að þekking okkar á áhrifum lyfja á fóstur sé mun meiri þegar um er að ræða gömul lyf en ný. Hins vegar hafa yfirleitt verið gerðar fleiri dýratilraunir með nýleg lyf en gömul.

Þegar ný lyf eru sett á markað er þess krafist að gerðar hafi verið umfangsmiklar rannsóknir á áhrifum lyfsins á dýrafóstur. Niðurstöður slíkra rannsókna á dýrum veita þó ekki nema takmarkaðar upplýsingar um áhrif lyfsins á menn en geta gefið gagnlegar vísbendingar um hvers megi vænta.

Rannsóknirnar miða að því að afla upplýsinga um áhrif lyfsins á frjósemi dýra og manna. Einnig er athugað hvort lyfið geti valdið vanskapnaði eða öðrum skemmdum á fóstrinu. Að lokum eru athuguð áhrif lyfsins á fóstrið á síðasta skeiði meðgöngunnar, í fæðingunni sjálfri og fyrst eftir fæðingu.

Eins og áður er getið er oft erfitt að yfirfæra niðurstöður rannsókna á dýrum yfir á menn. Til dæmis veldur Talidomid vanskapnaði hjá mönnum en yfirleitt ekki í dýrum. Svo eru önnur lyf eins og t.d. lyfið kortisón sem veldur klofnum gómi í músum en ekki í rottum, kanínum eða mönnum.

Í bókinni eru upplýsingar um notkun lyfja á meðgöngutíma. Lyfjunum er skipt í nokkra flokka eftir því hve hættulaus eða hættuleg þau eru talin fyrir fóstrið. Fyrir þessa mismunandi flokka eru notaðar lýsingar sem eru eins eða svipaðar því sem hér á eftir verður talið upp og útskýrt:

„Ekki hefur verið sýnt fram á að lyfið hafi nein skaðleg áhrif á fóstur“.

Þetta þýðir að lyfið hefur verið notað af miklum fjölda barnshafandi kvenna án þess að það hafi valdið fósturskemmdum. Þannig verður ekki séð að notkun lyfsins á meðgöngutíma hafi skaðleg áhrif á fóstur.

„Ekki er nægilega mikið vitað um áhrif lyfsins á fóstur. Nauðsynlegt er að ráðfæra sig við lækni ef lyfið er notað á meðgöngutíma.“

Þetta þýðir að lyfið hefur einungis verið notað í takmörkuðum mæli af barnshafandi konum en að sú notkun hafi ekki leitt neins konar skaðleg áhrif á fóstrið í ljós.

„Lyfið gæti haft áhrif á fóstur og ber því að ráðfæra sig við lækni áður en lyfið er tekið á meðgöngutíma.“

Þessi lýsing er notuð um lyf sem liggja undir ákveðnum grun að geta skaðað fóstrið á einn eða annan hátt. Þetta þýðir þó ekki endilega að lyfið geti valdið vanskapnaði.

„Hætta er á skaðlegum áhrifum á fóstur. Notið ekki þetta lyf á meðgöngutíma nema læknir telji það bráðnauðsynlegt.“

Þetta þýðir að lyfið er talið geta valdið vanskapnaði eða öðrum varanlegum skemmdum á fóstrinu.

Lyf í móðurmjólk

Fyrstu mánuðina fær ungbarn á brjósti oftast litla aðra næringu en mjólk. Innihald móðurmjólkurinnar er því mjög mikilvægt, bæði hvað varðar næringarefni og framandi efni sem hugsanlega gætu skaðað barnið. Lyf sem móðirin kann að taka geta skilist út í móðurmjólk. Stundum gerist þetta í það miklu magni að lyfið getur haft áhrif á barnið. Ekki mega gleymast allir þeir kostir sem brjóstagjöf hefur bæði fyrir barnið og móðurina. Þó að móðirin þurfi að taka lyf sem skiljast út í mjólk er ekki víst að þær vörur sem kemur til greina að nota í staðinn (kúamjólk, gervimjólk) séu lausar við framandi aukaefni.

Þegar meta þarf öryggi lyfs með tilliti til notkunar meðan barn er á brjósti er einkum beitt tveimur aðferðum. Önnur er að mæla magn lyfsins í móðurmjólkinni beint, en hin er að bera saman magn lyfsins í blóði móðurinnar og blóði barnsins sem er á brjósti.

Gefnar eru upplýsingar um hugsanleg áhrif flestra lyfjanna í skránni á brjóstabörn. Lyfjunum er skipt í flokka og eru athugasemdirnar með svipuðu orðalagi og eftirfarandi. Þessi atriði ættu að skýra sig sjálf út frá því sem sagt er hér að framan.

„Lyfið skilst ekki út í móðurmjólk.“

„Lyfið skilst út í móðurmjólk en áhrif þess á barnið eru líklega óveruleg. Þó er rétt að ráðfæra sig við lækni ef lyfið er notað að einhverju ráði meðan barn er á brjósti.“

„Lyfið gæti haft áhrif á barn á brjósti. Notið því ekki þetta lyf meðan á brjóstagjöf stendur nema samkvæmt ákveðnum fyrirmælum læknis.“

„Ekki er vitað hvort lyfið skilst út í móðurmjólk. Konur með börn á brjósti verða að ráðfæra sig við lækni áður en þær byrja að nota lyfið.“
 
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur