Magaverkir í mörg ár?

Spurning:
Sæll/sæl. Maginn á mér hefur verið með tóm leiðindi í mörg mörg ár. Fyrst var ég með reglulega magaverki (ristilkrampa) og var það þannig í örfá ár, en það lagaðist með breyttu mataræði og er það mjög sjaldgæft núna. En undanfarið eitt og hálft ár hef ég verið með leiðindi í maga aftur, sem lýsti sér fyrst með því að maginn á mér var frekar oft stífur, þ.e.a.s. alveg neðst, ég fannst ég alltaf þurfa að fara á klóið, kláði (sem hafði reyndar verið frekar tíður gestur lengi) og einstaka sinnum roði í pappírnum. En fyrir um hálfu ári hætti maginn að vera svona stífur en kláðinn og þessi einstaka roði er enn. Í fyrradag fékk ég þennan venjulega roða aftur, en í gær kom þónokkuð blóð með, meira en ég hef nokkurn tíma orðið var við. Hvað er í gangi spyr ég þá? Reyndar þykir mér gyllinæð líkleg, en þetta er búið að vera í gangi þónokkuð lengi.
Með kveðju,
p.s. er óeðlilegt að einkennin aukist með líkamsrækt af ýmsu tagi, sérstaklega þá kláðinn?

Svar:
Komdu sæl.

Einkennin sem þú lýsir gætu bent til að þú hafir bólgu í ristli og/eða endaþarmi. Annað sem kemur til greina er gyllinæðablæðing eða afrifa í húð við endaþarm. Það værir rétt að skoða þetta með stuttri ristilsspeglun. Þú ættir að leita til meltingarsérfræðings, ef þú hefur ekki nú þegar gert það. Nokkrir slíkir eru í Læknasetrinu Mjóddinni.

Bestu kveðjur

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum