Meðganga: Má ég láta lita á mér hárið?

Spurning:

Ég er nýlega orðin ófrísk, komin um það bil 4 vikur á leið og ég las í einhverri grein að konur ættu ekki að láta lita á sér hárið á meðgöngu, því eiturefni frá efnunum sem eru notuð gætu haft slæm áhrif á fóstrið. Er þetta rétt?

Svar:

Sæl.

Fóstrið er sérlega viðkvæmt fyrir áföllum ýmiss konar og það hefur lægri þröskuld fyrir ýmsum umhverfismengandi þáttum en við þessi fullorðnu. Ýmis efni geta haft skaðleg áhrif á fóstur – sérstaklega á fyrstu 12 vikunum meðan öll helstu líffærakerfin eru að myndast. Helstu skaðvaldarnir eru ýmis mengunarefni eins og leysiefni, skordýraeitur og þungmálmar, t.d. blý, cadmium og kvikasilfur. Nútíma hárlitunarefni eru ekki eins eitruð og þau voru áður fyrr, en aðgát skyldi þó höfð við litun og aflitun hársins, sérstaklega fyrstu 12 vikurnar. Það er þó mjög takmarkað magn efna sem fer inn um húðina. Það sem líka háir litun hárs á meðgöngu er hversu hratt hárið vex og hve illa það tekur lit. En ræddu þetta við hársnyrtinn þinn og þá velur hann bestu efnin fyrir þig.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir