Meðgögnueitrun?

Spurning:
Konan mín er gengin rúmlega 35 vikur. Hún hefur fundið fyrir einkennum meðgöngueitrunar (sem lýst er á doktor.is), t.d höfuðverkir, stjörnur fyrir augum, vanlíðan og verkir ofan til í kviði. Hinsvegar er hún með frekar lágan blóðþrýsting, enga eða nánast enga eggjahvítu í þvagi og engan bjúg. Við höfum farið nokkrum sinnum uppá deild og látið athuga þetta en ekkert virðist vera að og því er ekkert gert annað en að athuga blóðþrýsting. Okkur er bara sagt að fara heim og slappa af. Svona hefur þetta gengið í rúmar 2 vikur og við erum búin að slappa mjög vel af. Þrátt fyrir það eru þessi einkenni ekkert að hverfa og við erum farin að hafa miklar áhyggjur af þessu.

Við erum orðin hálfhrædd við að fara uppá deild þar sem við erum alltaf send til baka og ekkert virðist vera að. Konan mín finnur samt þessi einkenni og líður hræðilega. Stjörnurnar birtast nánast alltaf þegar hún er sitjandi í afslöppun, hvort sem það er fyrir framan sjónvarpið eða bara í baði. Blóðprufa var tekin til að athuga járnskort og meðgöngueitrun en samkvæmt henni er allt í himnalagi. Nokkrum sinnum hefur hún farið á klósettið og skilað glærum vökva sem henni fannst ekki koma úr þvagrásinni. Einnig hefur hún fundið dofa milli rifbeinanna.

Enginn virðist geta komið með neina útskýringu á þessu og enginn virðist hafa neinar áhyggjur af þessu, þrátt fyrir að geta ekki útskýrt þetta. Þessvegna erum við að farast úr áhyggjum. Það getur varla verið gott fyrir barn eða móður að upplifa svona stress og því leitum við hingað í von um einhver svör. Biðst afsökunar ef ég hef hoppað úr einu í annað. Vonandi skilst þetta.

Með von um svar.

Svar:
Það er margt sem getur hrjáð barnshafandi konu sem ekki er svo alvarlegs eðlis að nokkuð þurfi að gera og oft er um að ræða kvilla sem hverfa um leið og barnið er fætt. En það getur stundum verið erfitt fyrir fólk að greina milli hvort um er að ræða alvarlega hluti eða einungis saklausan en hvimleiðan kvilla og því alveg rétt hjá ykkur að láta líta á konuna. En sé blóðþrýstingur í lagi og ekkert í blóðrannsóknum sem bendir til blóðskorts er hér líklegast um að ræða saklaus fyrirbæri sem fylgja meðgöngunni. Komi þessi svimatilfinning helst þegar konan situr afturábak eða liggur gæti verið um að ræða blóðþrýstingsfall vegna þrýstings á stóru æðarnar í bakinu og besta ráðið til að hindra það er að sitja aldrei í djúpum stólum eða sófum eða liggja á bakinu – reyna frekar að sitja bein í baki eða halla sér fram á við og liggja á hliðunum frekar en á bakinu. Varðandi dofann milli rifbeinanna er líklegt að hann stafi af því að þau eru orðin svo þanin núna að húðin strengist yfir þau og verður til þess að tilfinning breytist. Verkur undir bringspölum stafar oftast af þrýstingi legsins og spörkum barnsins og lagast oft aðeins þegar krílið hefur skorðað sig um 36 vikna meðgöngu. Varðandi glæra vökvann þá kemur stundum svona vökvi frá kynfærum ef kona þarf að rembast mikið t.d. við hægðalosun. Einnig er aukin útferð frá leggöngum á meðgöngu. Ef þetta er mikill vökvi ætti að kanna hvort um legvatnsleka geti verið að ræða. Það er hægt að gera þar sem konan er í mæðravernd.

Vona að þetta svar geti í einhverju slegið á áhyggjur ykkar en þið ættuð endilega að ræða betur við ljósmóðurina sem annast konuna í mæðraverndinni og lækninn hennar þar.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir