Munnangur

Fyrirspurn:

Góðan dag, mig langar að forvitnast.

Ég er búin að vera með nokkur munnangur fremst á tungunni síðustu daga. 5 hvítar blöðrur sem tóku alveg um viku að fara, og nú er komin ein í viðbót. Í gær tók ég eftir því að 3,5 ára sonur minn var kominn með 4 svona hvítar blöðrur fremst á tunguna á sér og kvartaði mikið enda mjög óþægilegt. Hvað getur verið að valda þessu og hvað er best að gera við svona?

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Munnangur getur verið afar hvimleitt og óþægilegt.

Margir kannast við það að fá munnangur í kjölfar fría og hátíða þar sem mataræði er óreglulegt og ekki jafn heilsusamlegt og venjulega.

Venjulega er lítið við þessu að gera annað en að skola munninn vel eftir mat og sumir telja að sýkladrepandi munnskol gagnist til að flýta fyrir gróanda (til dæmis Hexadent sem fæst í apoteki með mismunandi bragðtegundum). Eins er hægt að kaupa tanntökugelið Bonjela og bera á sárin. Það tekur mesta verkinn og hentar vel börnum til að hægt sé að  fá þau til að nærast. Stundum er vanlíðanin svo mikil að viðkomandi þarf verkjalyf og þá gagnast venjulegt paratabs ágætlega.

Ég set hér með tengil á umfjöllun um munnangur sem birtist á doktor.is fyrir margt löngu en er ennþá í fullu gildi

vonandi kemur eitthvað af þessu að gagni.

Bestu kveðjur

Guðrún Gyða Hauksdóttir.

Hjúkrunarfræðingur