Naglasveppur – hvað er til ráða?

Spurning:

Góðan dag.

Ég hef haft sveppasýkingu undir nöglum, aðallega á stóru tánum báðum. Ég gekk samtals í 1 árs meðferð samkvæmt læknisráði húðsjúkdómalæknis. Meðferðin var í töfluformi. Og skemmst er frá að segja að meðferðin hefur haft þau áhrif að ég er laus við sveppi undir nöglum á fótum. Ég er hinsvegar mjög kvíðinn því að sýkingin komi aftur. Ég hef þess vegna hug á að vita umfram það sem ráðlagt er á heimasíðu Doktor.is hvort hægt sé að varast sitthvað fleira t.d. þegar sóttir eru sundstaðir.

Kveðja.

Svar:

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Eins og þú hefur nú sjálfur reynslu af tekur meðferð við naglasveppasýkingum langan tíma og endursýkingar algengar. Sýkingarnar verða algengari eftir að 40 ára aldri er náð og er ástæðan sú að vaxtarhraði nagla minnkar með aldrinum. Þær þykkna einnig sem veldur því að sveppirnir eiga auðveldara með að taka sér bólfestu. Það að vera meðvitaður um tilvist naglsveppasýkinga og bregðast við strax ef einkenni koma fram, hjálpar mikið því þá verður öll meðferð mikið auðveldari og tekur styttri tíma og því skaltu endilega ekki kvíða því að endursýking geti orðið. Ég ráðlegg þér eindregið að fylgja þeim ráðleggingum sem finna má á Doktor.is. Þeir einstaklingar sem svitna mikið á fótunum eru í meiri hættu á fótsveppasýkingum og því mikilvægt að skipta eins oft um sokka og skó og þörf er á og nota hvert tækifæri sem gefst til að fara úr skóm og jafnvel sokkum. Þegar sóttir eru sundstaðir er rétt að nota inniskó þegar gengið er á röku gólfi og stéttum til að forðast smit. Þessa skó þarf að þrífa vandlega eftir hverja notkun. Alltaf er mikilvægt að þvo og þurrka fæturna vandlega eftir heimsóknir á sundstaði. Ég vona að leiðbeiningar okkar hér á Doktor.is komi þér að gagni.

Gangi þér vel,
Kveðja, Sólveig Magnúsdóttir, læknir.