Ég hef verið að taka oxycontin við verkjum eftir að hafa verið hnjáliðsskiptaaðgerð fyrir rúmum 2 vikum. Ég hef tekið panodil með þessu en er alveg að ljúka oxyc.-skamtinum. Ég er búinn að vera mjög slæmur síðustu daga aðallega í kálfunum og kláða í hársrótum og enni. Ég hef á tilfinningunni að þetta geti verið ofnæmi af lyfjunum þar sem liðurinn virðist ganga vel ogæfingar með hann einnig. Ég vil því hætta á þessum lyfjum en tel að ég þurfi að taka eitthvað áfram við verkjum í einhvern tíma. Eru einhver lyf sem ég ætti að varast vegna svona aukaverkana eða er mér óhætt að taka flest þessi hefðbundnu verkjalyf.
Með bestu kveðju og þökk
Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina
Eftir liðaskiptaaðgerð á hné er algengast að notað sé Paracetamol sem grunnlyf og ópíat verkjalyf sem viðbótarlyf, en þetta kemur heim og saman við meðferðina sem þú lýsir.
Kláði er þekkt aukaverkun af ýmsum lyfjum sem tilheyra flokk ópíat verkjalyfja, þar með talið Oxycontin, og því er mögulegt að það sé það sem þú hefur fundið fyrir. Ef grunur er um lyfjaofnæmi þá er það alltaf eitthvað sem krefst nánari athugunar.
Verkjameðferð eftir aðgerð er einstaklingsmiðuð og því myndi ég ráðleggja þér að vera í sambandi við þinn lækni varðandi áframhaldandi verkjameðferð, en mikilvægt er að meðhöndla verki með viðeigandi hætti samhliða endurhæfingu til að ná sem skjótustum bata.
Það er ánægjulegt að heyra að vel virðist ganga með liðinn, takk fyrir fyrirspurnina og gangi þér vel.
Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur