Ráð varðandi Búlmíu

Spurning:

Sæl.

Ég er 19 ára gömul og nú um 3 ára skeið hef ég verið í heimavistarskóla. Þar eignaðist ég marga vini og voru þar á meðal 7 stúlkna hópur sem hélt sig mikið saman. Þegar líða fór á fyrsta árið tókum ég og vinkona mín eftir því að eftir hádegismat fóru að heyrist æluhljóð af klósettum á ganginum okkar. Við gengum á tvær vinkonur okkar sem okkur grunaði að væru að þessu, en þær sóru fyrir að vera ekki að þessu ælustandi. Nú jæja svo leið og beið og um (þetta gerðist í 1. bekk núna erum við í 4.) jól í 2. bekk var okkur nú ekki farið að standa á sama. Þá voru þessar tvær komnar saman í herbergi, eyddu óeðlilega miklum tíma saman, borðuðu hræðilega mikið og stálu úr búðum til að seðja hungrið sem var þó alltaf til staðar. Þá kom að því að þeim var farið að líða svo illa að þær ákváðu að segja okkur allt af létta, kölluðu t.d á mig inn í herbergi til þeirra og sögðu mér flissandi frá því að þær væru nú búnar að vera ælandi í u.þ.b ár. Ég varð alveg öskuvond og æddi út. Þá komu þær grátandi til mín og báðu um grið og ég sætti mig við það, ég lærði að lifa með því að alltaf ef við fórum út að borða eða eitthvað því um líkt að þá þyrftu þær að fara á klósettið að æla. Núna erum við komnar í 4. bekk og ég veit að þær eru enn að þessu. Önnur gengur nú til sálfræðings og er á einhverjum lyfjum en hin ekki neitt. Þessi sem er hjá lækninum sagði foreldrum sínum frá þessu og þau sem hafa gengið í gegnum ýmislegt, vildu allt fyrir hana gera (systir hennar er inn og útúr meðferð og pabbi hennar er ný orðinn þurr) en foreldrar hinnar vita enn ekki neitt. Ég veit ekki eiginlega hvað ég á að gera ég hugsaði alltaf þær eru jafngamlar og ég og ef ég á að fara að hafa vit fyrir þeim þá er eitthvað að. Mig langar alltaf að slíta vinskap við þær en samt ekki því mér þykir ósköp vænt um þær. Ég veit bara ekki hvernig ég á að snúa mér í þessu máli, ég hef sagt frá þessu til að fá svör en enginn virðist vita neitt. Sumir segja mér að vera hörð við þær og alltaf að láta þær vita hvað þetta er rangt en ég bara get það ekki. Kær kveðja og von um svar.

Ég.

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrir spurninguna.

Búlimia og önnur mataróregla er, eins og mér heyrist að þú áttir þig á, mjög alvarlegt mál og snýst um annað og meira en að borða og kasta upp.

Þú segir í bréfi þínu að þú hafir sagt frá þessari mataróreglu vinkvenna þinna, en þú nefnir ekki hverjum þú sagðir það. Þú minnist heldur ekki á að þú hafir lofað þeim að segja engum frá þessu, en það er einmitt það sem þú þarft að gera.

Hins vegar segist þú vera 19 ára, og ég reikna þá með því að stöllur þínar séu orðnar 18 ára. Það þýðir í rauninni að erfitt getur reynst að hjálpa þeim ef þær vilja það ekki sjálfar. Hin venjulega leið væri þá væntanlega að viðkomandi leitaði til heimilislæknisins sem sæi um nauðsynlega upplýsingaöflun, s.s. blóðrannsókn og vísaði síðan áfram til þeirra geðlækna og sálfræðinga sem meðhöndla vandamál af þessu tagi.

Ef mataróreglan er í þeim mæli sem þú lýsir og hefur varað í svo langan tíma, þykir mér mjög ótrúlegt að einhverjir þeirra sem umgangast stúlkurnar á hverjum degi og hafa jafnvel gert til margra ára, verði ekki varir við neinar breytingar í fari þeirra, námsafköstum og útliti.

Ef þið eruð enn saman í skóla og á heimavist, þá hlýtur að vera fólk þar sem þú getur talað við, s.s. hjúkrunarfræðingur, læknir, skólastjóri, umsjónarkennari eða einhver annar sem ber ábyrgð eða þú treystir vel. Ég mæli eindregið með því að þú gerir það. Í því sambandi vil ég minna þig á að þú berð ekki ábyrgð á hegðun vinkvenna þinna og átt að sjálfsögðu ekki að hafa vit fyrir þeim. Þar að auki mun það ekki hjálpa þeim þótt þú atyrðir þær eða lýsir yfir vanþóknun þinni með einhverjum hætti.

Þú getur hins vegar lagt þitt lóð á vogarskálina til að hjálpa þeim með því að tala við það fólk sem ég nefndi, þannig að það geti haft samband við foreldra stúlkunnar og lýst áhyggjum yfir ástandinu og gert viðeigandi ráðstafanir í samráði við þau og hana sjálfa.

Vona að þetta gangi.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir,atferlisfræðingur