Ráðlagður dagskammtur megnesíums?

Spurning:
Góðan dag.
Mig langar að vita hver ráðlagður dagskammtur af magnesium er. Mér var ráðlagt að taka 4-600 mg. vegna ristilvandamála en á töfluboxinu mínu stendur 1-200 mg.
Er það í lagi að taka svona mikið magn?
Safnast magnesiumið fyrir í líkamanum eða er það frásogslyf?

Svar:
Ráðlagður dagskammtur magnesíums samkvæmt stöðlum Manneldisráðs Íslands (http://www.manneldi.is/) eru 280 mg fyrir konur og 350 mg fyrir karla. Sums staðar annarsstaðar er talað um heldur hærri skammta, eða 300-400 mg. Í langflestum tilvikum fær fólk nægilegt magn magnesíums úr fæðunni þannig að sá sem tekur 400 mg inn sem fæðubótarefni er líklega að fá a.m.k. 7-800 mg á dag.

Þeir sem eru með nýrnasjúkdóma eða hjartasjúkdóma ættu ekki að taka inn magnesíum nema gegn læknisráði.Algengustu einkenni ofskömmtunar er niðurgangur, uppþemba eða aðrar meltingartruflanir, enda er magnesíum stundum notað sem hægðalyf.Ekki er talið að heilbrigðum einstaklingum stafi hætta af því að taka inn eitthvað stærri skammta þar sem frásog er að einhverju leyti í hlutfalli við magnesíumbirgðir líkamans og umframmagn skilur tiltölulega hratt út. 4-600 mg á dag af magnesíum ætti því að vera í lagi ef nýrnastarfsemi er eðlileg.Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur