Spurning:
Góðan dag, ég er nýbyrjuð að taka Reductil við offitu en er jafnframt á ofnæmislyfinu Telfast 180 mg eða 1 töflu á dag því ég er mjög ofnæmisgjörn. Ég las í leiðbeiningunum með Reductiltöflunum að ekki mætti taka þær inn um leið og ofnæmislyf sem valda auknum hjartslætti, er Telfast þannig lyf ? Ég prófaði að taka þetta saman og varð ekki vör við neitt, en maður veit aldrei…. Kær kveðja með þökk fyrir frábæra síðu, ein í lyfjapælingum
Svar:
Þú átt ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að taka Telfast og Reductil saman. Telfast eykur ekki hjartslátt. Þau hósta-, kvef- og ofnæmislyf sem átt er við að ekki megi taka með Reductil eru helst efedrín og skyld lyf. Efedrín er t.d. í hóstamixtúru sem heitir Paradryl med efedrin. Einnig er af sömu ástæðu varað við samtímis notkun Reductil og nefúðalyfja eins og Drixin, Otrivin, Nexól og Nezeril.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur