Reikna út egglos

Fyrirspurn:

Hæ, hæ,

Er í smá vandræðum og vona að þið getið hjálpað mér? Mér og manni mínum langar að eignast annað barn og mig vantar að  vita hvenær er egglos hjá mér? Var á blæðingum síðast 13. júlí og svo var ég að byrja núna 6.ágúst þannig að tíðarhringurinn minn er ca 24 til 25 dagar. Hvernig get ég þá reiknað út hvenær er egglos?

Kærar þakkir,

Ein í vanda

Svar: 

Sæl,

Þegar miðað er við 28 dagar tíðahring þá er talað um að egglosið sé í miðjum tíðahringnum en þegar tíðarhringurinn er styttri eða lengri er það tíminn fram að egglosi sem er breytilegur. Það eru alltaf um 14 dagar frá egglosi og fram að blæðingum ( +/- kannski einn dagur).  Þannig að hjá þér er mjög líklegt að egglosið sé á 10-11 degi.  Það eru til svona egglospróf sem eru svipuð þungunarprófunum – þú pissar á þau og þau sýna þegar hormónið LH hækkar í þvaginu en það hækkar rétt áður en egglosið verður.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Kristín Svala Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir