Ritalín

Fyrirspurn:

Góðan dag.

Undarfarin ár hefur börnum með hegðunarvandamál verið gefið Ritalin sumum hverjum.  Hef lesið að þetta ávanalyf hafi róandi áhrif á börn en örvandi á fullorðna.  Eru einnig til dæmi um að börnum þessum hafi stundum verið ávísað amfetamín?  Skv. lyfjabókinni er veikasta Ritalin-efnið 10 mg. og er börnum stundum gefið sterkara af því?  Því vil ég spyrja, hvort sé sterkara 5 mg. amfetamín eða 10 mg. Ritalin

 

Svar:

Ritalin inniheldur virka efnið methylphenidat sem er skylt amfetamíni og öðrum lyfjum í sama flokki. Amfetamín hefur vissulega verið notað til meðhöndlunar á ofvirkni (ADHD) hjá börnum en í dag er notkun þess hverfandi enda mun hentugra að nota Ritalin í staðinn. Það stafar aðallega af því að Ritalin er ekki eins virkt og amfetamín og því er auðveldara að stilla skammta af til að fá sem besta verkun með sem minnstum aukaverkunum. Að auki færist í vöxt notkun á Ritalin Uno og Concerta sem einnig innihalda methylphenidat en hafa forðaverkun sem veldur jafnari verkun yfir sólarhringinn og dregur þannig úr aukaverkunum (losnar hugsanlega við toppa sem geta komið vegna áhrifa lyfsins).

Hvað veldur ADHD og hvernig methylphenidat (og önnur sambærileg lyf) verka á sjúkdóminn er ekki að fullu þekkt. Þó er vitað að þessi efni leiða til aukinna áhrifa taugaboðefnanna dópamíns og noradrenalíns (og að minna leyti serótóníns) í miðtaugakerfinu með því að hindra endurupptöku þeirra. Ein kenningin um orsök ADHD er sú að skortur sé á dópamín losun úr taugaendum og þannig hjálpi lyfin til við að meðhöndla sjúkdóminn. Dópamín er örvandi efni og mikilvægt fyrir ýmsa hluti s.s. einbeitingu sem oft skortir hjá ADHD sjúklingum.

Með því að örva dópamín virkni eru þessi lyf því flokkuð sem örvandi lyf og myndir hafa sýnt aukna virkni í heilum ADHD sjúklinga þegar lyfin eru gefin. Þessi örvun miðtaugakerfisins dregur úr einkennum sjúkdómsins og auðveldar sjúklingnum að einbeita sér, eykur félagslega færni o.s.frv. Skammtar fyrir börn sem og fullorðna eru mjög breytilegir og einstaklingsbundnir. Þeir fara eftir því hve sterk einkenni sjúkdómsins eru og hversu vel sjúklingurinn þolir lyfið. Byrjað er á litlum skömmtum, 5-10 mg einu sinni eða tvisvar á dag. Síðan er skammturinn aukinn um 5-10 mg vikulega eða þar til viðunandi árangur næst. Dagskammtur skal þó ekki fara yfir 60 mg.

__________________________________
Þórir Benediktsson
Lyfjafræðingur