Sambandið er kulnað

Spurning:
Heil og sæl! Ég er í vanda. Ég hef búið með manninum mínum í yfir 20 ár eða síðan ég var 16 ára. Við eigum tvö yndisleg börn og er ég afar þákklát fyrir það. Við misstum barn við fæðingu og það hefur reynt mikið á okkur en mér finnst ég sátt við þá reynslu í dag. Ég var ætíð dugleg að tala um sorgina og leita mér hjálpar en hann ekki. Í dag er svo komið að sambandið er kulnað og þó sérstaklega frá minni hálfu. Maðurinn minn er mjög afbrýðisamur út í allt sem ég geri og en mér hefur gengið vel í starfi og viðurkenningar hafa borist mér annað slagið. Ég vildi skilja í fyrra en missti kjarkinn og síðan höfum við leitað aðstoðar saman og í sitt hvoru lagi. Mér hefur verið ráðið að losa mig út úr sambandinu en ég er rög og hugsa : Eru það mistök, enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, Eg er hrædd við að særa og svo framvegis.

Hver eru ykkar ráð? ekki er ég ein í þessari stöðu?

Svar:
Sæl vertu. Í sjálfu sér get ég ekki átt þátt í ákvörðun þinni um skilnað eða ekki skilnað, þar sem sú ákvörðun og sú ábyrgð, sem henni fylgir hlýtur alltaf að verða þín. Ég get þó aðstoðað þig við að taka þá ákvörðun. Þetta er og verður erfið ákvörðun, og hún verður alltaf að vera tekin út frá þér sjálfri og verður því sjálfmiðuð, hvort sem þér líkar það betur eða verr.

Mér finnst þú vera að segja að þú hafir þroskast frá manninum þínum. Á meðan þú hefur verið að vinna úr þínum málum og halda lífinu áfram þrátt fyrir áföll, hefur hann staðnað og neitað að takast á við áföllin og þroskast í framhaldi af þeim. Þá er ég bæði að tala um lýsingu þína á því hvernig hann tók á því að missa börnin og hvernig þú lýsir afbrýðisemi hans. Líklegast hefur þú orðið að vera sterki aðilinn í hjónabandinu. Hann hefur ekki fundið leið eða viljað finna leið til þess að styrkjast og þroskast með þér og í staðinn frekar dregið þig niður. Þú hefur reyndar átt þinn þátt í þessu með því að setja honum ekki mörk hvað þetta varðar eða gera á hann kröfur. Og nú finnst þér þú ekki eiga samleið með honum lengur. Augljóst er einnig að þú hefur að einhverju leyti verið meðvirk með honum og sú meðvirkni dregur úr þér að taka ákvörðun um skilnað. Þú virðist vorkenna honum frekar en gera á hann kröfur. Er það þannig hjónaband sem þú vilt lifa í?

Skilnaður getur verið endir einhvers lífs sem maður vill ekki lifa, án þess að maður viti endilega hvað maður vill í staðinn. Skilnaður getur líka verið upphaf einhvers lífs sem maður vill lifa og hefur komist að því að þess konar lífi nær maður ekki með núverandi maka. Fyrri leiðin er flótti og stefnulaus ákvörðun, sem alltof oft leiðir til mjög svipaðs ástands að skömmum tíma liðnum. Síðari leiðin er ekki flótti, heldur sókn í líf, sem maður hefur gert upp við sig að maður vilji lifa. Til þess að síðari leiðin geti verið manni sjálfum ásættanleg og án spurninga um “Hvað ef ég hefði…..” o.s.frv., þarf maður að vinna vel í því að átta sig á því hvernig lífi maður vill lifa og láta reyna mjög ákveðið á að það gangi ekki með núverandi maka. Gera þarf makanum vel grein fyrir því hvernig lífi maður vill lifa, hvernig maka maður vill eiga og til hvers maður ætlast af makanum. Hvað það er sem maður vill fá út úr því að vera í hjónabandi. Gefa makanum kost á að finna út hvort hann eigi samleið með manni eða hvort hann vilji allt annað líf. Gefa honum kost á að takast á við sjálfan sig og breyta sér ef hann vill það. Þetta krefst þess líka að þú gerir þér fulla grein fyrir að þú viljir hann áfram sem maka, ef hann vill breyta lífi sínu í þann farveg sem þú vilt lifa því.

Allt þetta ber að þeim brunni að þú verður að gera upp við þig hvað þú vilt og taka ákvörðun út frá því. Hvers vegna ættir þú að lifa lífi sem er þér ekki fullnægjandi? Ábyrgð þín er fólgin í því að gera þér grein fyrir því hvers konar lífi þú vilt lifa og gera kröfur á maka þinn um að hann viti hvers konar lífi hann vill lifa og síðan að taka meðvitaða ákvörðun um hvað þú gerir í framhaldi af því. Þannig ber okkur að bera ábyrgð á lífi okkar. Með þetta ættir þú að geta fengið aðstoð við hjá sálfræðingi eða hjónabandsráðgjafa. Það eru sorglega margir, sem ekki bera þessa ábyrgð og líta á efri árum til baka yfir farinn veg og sjá eftir því að hafa ekki borið þessa ábyrgð, heldur látið skeika að sköpuðu.

Gangi þér vel, þetta er þegar allt kemur til alls þitt líf og enginn veit fyrir víst hvort þau verða fleiri,

kveðja, Sigtryggur